Fótbolti

Útilokar ekki að brjóta hundrað marka múrinn fyrir England

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Harry Kane er markahæsti leikmaður enska landsliðsins frá upphafi.
Harry Kane er markahæsti leikmaður enska landsliðsins frá upphafi. Rob Newell - CameraSport via Getty Images

Harry Kane, framherji Tottenham Hotspur og enska landsliðsins í fótbolta, segir að það sé ekki óhugsandi að hann muni skora hundrað mörk fyrir þjóð sína áður en skórnir fara á hilluna. Hann segist þó gera sér grein fyrir því að markmiðið sé háleitt.

Þessi 29 ára gamli framherji varð markahæsti leikmaður enska landsliðsins frá upphafi þegar hann skoraði úr vítaspyrnu í 2-1 sigri gegn Ítölum síðastliðinn fimmtudag. Hann bætti svo öðru marki við gegn Úkraínu í 2-0 sigri á sunnudaginn og hefur nú skorað 55 mörk í 82 landsleikjum.

„Að ná hundrað mörkum verður klárlega erfitt, en við skulum ekki útiloka neitt,“ sagði framherjinn.

„Ég er enn ungur. Ég er bara 29 ára og enn í góðu formi og hraustur. Ég vil spila fyrir England eins lengi og ég mögulega get.“

Kane fær tækifæri til að bæta við mörkum fyrir enska landsliðið þegar liðið mætir Möltu og Norður-Makedóníu í júní.

„Ég býð mig alltaf fram og vil spila hvern einasta leik. Við tökum þetta skref fyrir skref. Næsta skref er að komast yfir sextíu mörk.“

„Að ná hundrað mörkum er ekki ómögulegt. Það verður ótrúlega erfitt, en við sjáum til hvernig gengur á næstu árum,“ sagði framherjinn að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×