Fótbolti

Jóhann Berg fyrirliði Íslands á morgun

Valur Páll Eiríksson skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson með fyrirliðabandið.
Jóhann Berg Guðmundsson með fyrirliðabandið. Getty/Alex Grimm

Jóhann Berg Guðmundsson verður fyrirliði Íslands er liðið mætir Bosníu í undankeppni EM annað kvöld.

Aron Einar Gunnarsson er fyrirliði Íslands en hann verður fjarverandi vegna leikbanns. Hann fékk rautt spjald í leik við Albaníu í Þjóðadeildinni og því legið fyrir um hríð að hann verður ekki með á morgun.

Jóhann Berg mun bera bandið í hans stað en Jóhann hefur leikið einkar vel með Burnley í ensku B-deildinni á yfirstandandi leiktíð. Hann var fjarverandi um þónokkurt skeið vegna meiðsla en hefur nú fundið fjölina að nýju.

Búist er við því að Jóhann Berg verði einn þriggja miðjumanna á morgun og þeir Jón Dagur Þorsteinsson og Arnór Sigurðsson manni kantstöðurnar. Jóhann hefur leikið miðsvæðis með Burnley í vetur.

Ísland mætir Bosníu klukkan 19:45 annað kvöld í Bosníu. Vísir fylgir liðinu eftir og mun lýsa leiknum beint á vefnum auk þess að gera allt saman upp í leikslok.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×