Fótbolti

Arnar um Gumma Ben og Albert: Hef ekki tíma til að pæla í svona hlutum

Valur Páll Eiríksson skrifar
Arnar Þór segist einblína á liðið sem er í verkefninu og leikinn á morgun, fremur en yfirlýsingar utan úr bæ.
Arnar Þór segist einblína á liðið sem er í verkefninu og leikinn á morgun, fremur en yfirlýsingar utan úr bæ.

Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari Íslands, vildi lítið tjá sig um yfirlýsingu Guðmundar Benediktssonar fyrir helgi. Guðmundur gagnrýndi þá starfshætti Arnars og hvernig hann talaði um son hans Albert Guðmundsson á opinberum vettvangi.

Arnar hefur ekki brugðist við pistlinum opinberlega en var inntur eftir svörum á blaðamannafundi Íslands í Zenica í dag. Ísland mætir Bosníu í fyrsta leik liðsins í undankeppni EM í borginni á morgun.

„Mín viðbrögð eru í raun bara mjög lítil. Ég hef ekki mikinn tíma til að pæla of mikið í svona hlutum, sem betur fer. Það er nóg að gera og við erum að einbeita okkur að leiknum á morgun,“ segir Arnar og segir öllum frjálst að hafa sínar skoðanir.

„Ég hef alltaf sagt að það mega allir og eiga allir að hafa sínar skoðanir og ég virði það bara. Ég geri síðan bara það sem ég get gert og stjórna því sem ég get stjórnað,“ segir Arnar enn fremur.

Albert er ekki í leikmannahópi Íslands fyrir komandi leiki en hann hefur spilað vel að undanförnu fyrir félag sitt Genoa í ítölsku B-deildinni. Arnar hefur gagnrýnt hugarfar Alberts og kvaðst ekki hafa valin hann á þeim grundvelli, eitthvað sem Guðmundur sagði ekki rétt í yfirlýsingunni á föstudag.

Ísland mætir Bosníu klukkan 19:45 annað kvöld í Bosníu. Vísir fylgir liðinu eftir og mun lýsa leiknum beint á vefnum auk þess að gera allt saman upp í leikslok.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×