Körfubolti

Keflavík deildarmeistari | Valur fór létt með Grinda­vík

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Birna Valgerður skilaði sínu í kvöld.
Birna Valgerður skilaði sínu í kvöld. Vísir/Vilhelm

Keflavík og Valur mættu ekki mikilli mótspyrnu í leikjum sínum í Subway-deild kvenna í körfubolta í kvöld. Keflavík vann botnlið ÍR örugglega, 87-42. Þá vann Valur stórsigur á Grindavík, 92-66.

ÍR tók á móti Keflavík og segja má að þar hafi kötturinn leikið sér að músinni. Leikurinn var í raun aldrei spennandi og vann Keflavík á endanum 45 stiga sigur, lokatölur 42-87. Sigurinn þýðir að Keflavík hefur tryggt sér deildarmeistaratitilinn. Að sama skapi er ÍR fallið.

Birna Valgerður Benónýsdóttir og Emilía Ósk Gunnarsdóttir voru stigahæstar í liði Keflavíkur með 17 stig hvor. Greeta Uprus var stigahæst í liði ÍR með 12 stig.

Grindavík mætti á Hlíðarenda og stóð í Valsliðinu fyrstu tíu mínútur leiksins. Lengra náði það hins vegar ekki og segja má að Valur hafi klárað dæmið strax í öðrum leikhluta leiksins. Sá leikhluti vannst með 18 stigum og því 20 stiga munur í hálfleik. Þegar lokaflautið gall var munurinn 26 stig, lokatölur 92-66 Valskonum í vil.

Kiana Johnson þræðir boltann í gegnum Grindavíkur vörnina.Vísir/Vilhelm

Kiana Johnson var frábær í liði Vals en hún skoraði 19 stig, gaf 14 stoðsendingar og tók 6 fráköst. Eydís Eva Þórisdóttir var óvænt þar á eftir með 17 stig á aðeins 17 spiluðum mínútum. Eydís Eva hitti úr öllum sjö skotum sínum í kvöld, þar af þremur 3ja stiga skotum. Hjá Grindavík var Amanda Akalu Iluabeshan Okodugha stigahæst með 17 stig.

Keflavík er sem fyrr á toppi deildarinnar. Þar á eftir koma Haukar og Valur jöfn að stigum. Grindavík er í 5. sæti og ÍR fallið í neðsta sæti með aðeins einn sigur.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×