Handbolti

„Ég er bara á bleiku á skýi“

Hinrik Wöhler skrifar
Sigurður Bragason, þjálfari ÍBV, var eðlilega í skýjunum eftir að liðið tryggði sér bikarmeistaratitilinn í dag.
Sigurður Bragason, þjálfari ÍBV, var eðlilega í skýjunum eftir að liðið tryggði sér bikarmeistaratitilinn í dag. Vísir/Diego

Sigurður Bragason, þjálfari ÍBV, var kampakátur með sigur ÍBV á Val í úrslitaleik Powerade-bikar kvenna í Laugardalshöll í dag. Eyjakonur hafa þurft að bíða í talsverðan tíma eftir þessum titli en þetta er fyrsti bikarmeistaratitill Eyjakvenna í nítján ár.

„Ég er bara á bleiku á skýi, þetta er bara þvílík sælutilfinning. Þegar mínúta var eftir leiknum byrjaði mér að líða svona æðislega vel,“ sagði Sigurður glaðbeittur í samtali við Vísi eftir leik.

Vestmanneyingar létu sig ekki vanta í stúkuna í dag og veittu sínum konum góðan stuðning.

„Frábær stuðningur, svona er þetta alltaf. Hér eru 600 manns frá Vestmannaeyjum, bara æðislegur stuðningur. Auðvitað hjálpar það í svona leik, sérstaklega þegar eru áföll. Þá er virkilega gott að geta fengið þessa orku frá stúkunni. Auðvitað hjálpar það.“

Umdeilt atvik átti sér stað í fyrri hálfleik þegar markvörður ÍBV, Marta Wawrzynkowska, fékk að líta beint rautt spjald eftir samstuð við Theu Imani Sturludóttur.

„Í leiknum fannst mér þetta galið, mér fannst þær bara hoppa saman og þetta væri mögulega tvær mínútur. Ég verð að viðurkenna þar sem ég er skaphundur að ég var alveg á þolmörkum en ég ákvað að kíkja á atvikið í hálfleik því ég var ekki búinn að jafna mig. Á endanum er ég sammála dómnum og ég sagði það við dómarana. Mér finnst hendin á Mörtu sveiflast í hana [Theu Imani], ég meina þetta eru engir vitleysingar að dæma. Þeir eru ekki að vísa henni af velli af einhverjum geðþótta.“

Sigurður missti af undanúrslitaleiknum á móti Selfossi en kom til baka á hliðarlínuna í úrslitaleikinn eftir að tekið út tveggja leikja leikbann.

„Ég er trillusjómaður og er búinn að vera róa að undanförnu. Á meðan leikirnir voru í gangi voru menn að reyna ná í mig en það var ekkert hægt, ég var bara að fiska. Maður fær peninginn á sjónum en ekki í handboltanum,“ sagði sjómaðurinn og þjálfarinn, Sigurður Bragason, að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×