Innlent

Segir kjara­við­ræður við OR hafa siglt í strand

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Orkuveitan
Orkuveitan VÍSIR/VILHELM

Samninganefnd VM og RSÍ segir að kjaraviðræður við Orkuveitu Reykjavíkur hafi siglt í strand. Lýst er yfir vonbrigðum með það sem samninganefndin lýsir sem óbilgjarnri og einstrengingslegri afstöðu OR í viðræðunum.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem samninganefndin, sem samanstendur af félagsmönnum VM - Félag vélstjóra og málmtæknimanna og Rafiðnaðarsambandi Íslands, sendu á fjölmiðla síðdegis.

Þar segir að samningaviðræður við OR hafi staðið yfir síðustu mánuði. Þær hafi hins vegar reynst árangurslausar hingað til.

„Samninganefnd VM og Rafiðnaðarsambands Íslands hefur unnið að því að semja við Orkuveituna á sömu nótum og samið var um í almennum kjarasamningum í desember. Nú liggur ljóst fyrir að stefna viðsemjanda okkar er önnur en þar var samið um,“ segir í yfirlýsingunni þar sem samninganefnd OR er sökuð um takmarkaðan vilja til að ná samningum.

„Þannig hefur Orkuveitan til dæmis hafnað því að taxtar sinna starfsmanna hækki líkt og á almennum vinnumarkaði,“ segir í yfirlýsingunni.

Eru félagsmenn félaganna boðaðir til fundar í húsi Fagfélaganna næstkomandi mánudag klukkan 11, þar sem farið verður yfir næstu skref í kjaradeilunni.

„Vilji Orkuveitunar til að skrifa undir sanngjarna samninga við starfsfólk sitt er enginn og því sjáum við ekki aðra kosti í stöðunni en að boða félagsmenn á fund til þess að fara yfir næstu skref sem við munum taka í sameiningu þar sem kjarasamningsviðræður okkar við Orkuveitu Reykjavíkur hafa einfaldlega siglt í strand.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×