Fótbolti

Alfons í byrjunarliðinu í sigri Twente

Smári Jökull Jónsson skrifar
Alfons í baráttunni í dag.
Alfons í baráttunni í dag. Vísir/Getty

Alfons Sampsted var í byrjunarliði Twente þegar liðið lagði Fortuna Sittard í hollensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

Alfons gekk til liðs við Twente nú í vetur eftir frábær ár hjá Bodö/Glimt þar sem liðið fagnaði Noregsmeistaratitlinum í tvígang auk þess að ná mjög góðum árangri í Evrópukeppni.

Eins og áður segir var Alfons í byrjunarliðinu í dag og spilaði í hægri bakverðinum. Hann lék í rúma klukkustund en var tekinn af velli á 62.mínútu. Þá var staðan 0-0 en skömmu síðar náði Twente frábærum kafla og skoraði þrjú mörk á tíu mínútna kafla.

Vaclav Cerny kom þeim í 1-0 á 67. mínútu og Manfred Ugalde bætti við tveimur mörkum strax í kjölfarið.

3-0 urðu lokatölur leiksins og Twente því enn í fimmta sæti deildarinnar, fimm stigum á eftir stórliði PSV sem er í fjórða sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×