Handbolti

„Hef engar á­hyggjur af mínum leið­toga­hæfi­leikum“

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Aron Pálmarsson á góðri stundu.
Aron Pálmarsson á góðri stundu. VÍSIR/VILHELM

Landsliðsfyrirliðinn Aron Pálmarsson vísar gagnrýni á leiðtogahæfileika sína á bug og kveðst staðráðinn í að liðið muni svara fyrir slaka frammistöðu í Tékklandi á dögunum.

Íslenska liðið mætir Tékkum í Laugardalshöll á morgun, þremur dögum eftir að hafa tapað með fimm marka mun ytra, 22-17 og hafa strákarnir verið gagnrýndir harkalega fyrir frammistöðu sína í leiknum.

Liðið æfði í Safamýri í gær og var Aron til viðtals í kjölfarið.

„Þetta var erfið nótt, erfiður ferðadagur og allt það. Við erum búnir að funda og fara vel yfir þetta og við sjáum alveg hvað við þurfum að gera,“ sagði Aron.

„Það var ekki boðlegt hvernig við spiluðum leikinn. Þegar þú ert kominn í þennan búning áttu alltaf að gefa 110% í hlutina. Ég var svekktastur með það hvað varðar sjálfan mig.“

Handboltahlaðvarpið Handkastið fjallaði ítarlega um tapið gegn Tékkum og þar voru leiðtogahæfileikar Arons meðal annars dregnir í efa. Hefur slík umræða einhver áhrif á fyrirliðann?

„Neinei. Maður er auðvitað var við umræðuna og allt það en maður tekur ekki mikið mark á þessu. Sérstaklega þegar maður sér hverjir eru að segja það. Ég pæli lítið í því. Ég veit hvað ég get og hef fram að færa í þessu liði. Ég hef engar áhyggjur af mínum leiðtogahæfileikum og liðsheildin er ekki vandamál í þessu liði. Við spiluðum bara mjög illa; lélegan handbolta sóknarlega á meðan vörnin var frábær og Bjöggi góður,“ segir Aron en viðtalið í heild má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir

„Aron er enginn leiðtogi“

Íslenska karlalandsliðið í handbolta vantar sárlega leiðtoga. Þetta var meðal þess sem var rætt í Handkastinu í gær.

Strákarnir okkar fá fullan stuðning

Uppselt er á landsleik Íslands og Tékklands í undankeppni EM karla í handbolta sem fram fer í Laugardalshöll á sunnudaginn klukkan 16.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×