Umfjöllun: Tékkland - Ísland 22-17 | Afleitur sóknarleikur íslenska liðsins í Brno

Hjörvar Ólafsson skrifar
048A2420
vísir/vilhelm

Ísland laut í lægra haldi 22-17 þegar liðið sótti Tékkland heim í þriðju umferð í undankeppni EM 2024 í Brno í kvöld.

Sóknarleikur íslenska liðsins var einkar slakur en staðan í hálfleik var 12-10 tékkneska liðinu í vil. Fyrri hluti seinni hálfleiks var svo áframhald af þeim fyrri og í rauninni fóru leikmenn íslenska liðsins úr öskunni í eldinn. 

Íslenska liðið skoraði einungis tvö mörk fyrsta stundarfjórðunginn rúman og alls sjö mörk í seinni hálfleiknum. 

Færanýtingin var afskaplega slök og tapaðir boltar voru allt of margir. Ekki verður við vörn og markvörslu að sakast fyrir þetta slæma tap en Björgvin Páll Gústavsson varði 12 skot í leiknum.

Viggó Kristjánson var ljósasti punkturinn í sóknarleik íslenska liðsins en hann skoraði sjö mörk. 

Bjarki Már skoraði fjögur mörk og svo lögðu Aron Pálmarsson, Gísli Þorgeir Kristjánsson, Arnar Freyr Arnarsson, Janus Daði Smárason, Sigvaldi Björn Guðjónsson og Óðinn Þór Ríkharðsson eitt mark hver í púkkið.   

Tékkar eru eftir þennan sigur í efsta sæti riðilsins með sex stig en Ísland kemur þar á eftir með fjögur stig. 

Liðin munu leiða saman hesta sína í næstu umferð undankeppninnar í Laugardalshöllinni á sunnudaginn kemur. Verði þessi lið jöfn á toppi riðilsins mun staðan liðanna í innbyrðisiviðureignum þeirra skera úr um hvort liðið hafnar ofar. 

Því þurfa Gunnar Magnússon, Ágúst Þór Jóhannson og lærisveinar þeirra að jafna sig hratt á þessu tapi og freista þess að snúa taflinu sér í vil í seinni viðureign liðanna.  

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira