Erlent

Síðasta orrusta Wagner?

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Hart er barist um Bakhmut og sér ekki fyrir endann á átökunum.
Hart er barist um Bakhmut og sér ekki fyrir endann á átökunum. AP/Libkos

Serhiy Cherevaty, yfirmaður hersveita Úkraínu í austurhluta landsins, segir orrustuna um Bakhmut þá síðustu sem sveitir Wagner málaliðahópsins munu há. Hann segir þúsundir liðsmanna Wagner hafa fallið í átökunum.

Þrátt fyrir að bardagarnir í Bakhmut hafi kostað báðar fylkingar miklar blóðsúthellingar virðast Úkraínumenn mögulega eygja tækifæri í því að gera út um þann liðsstyrk sem Wagner aflaði sér úr fangelsum Rússlands.

New York Times hefur eftir yfirvöldum í Úkraínu að nærri 30 þúsund af 50 þúsund liðsmönnum Wagner hafi ýmist verið drepnir, særst eða hlaupist undan, margir í Bakhmut. Stjórnvöld hafa ekki gefið upp hversu margir Úkraínumenn hafa fallið en Rússar segja fjöldann í kringum 11 þúsund, bara í febrúar.

Yevgeny Prigozhin, stofnandi Wagner, segir málaliðahópinn nú hafa austurhluta Bakhmut alfarið á sínu valdi, allt austan við ána Bakhmutka. Hann sagði í gær að um 12 til 20 þúsund úkraínskir hermenn freistuðu þess enn að verja borgina.

Það vekur nokkra athygli að á sama tíma og bandamenn Úkraínu hafa lýst því yfir að yfirráð yfir borginni skipti ekki sköpum og að sigur Rússa í orrustunni væri aðeins táknrænn hefur Vólódímir Selenskí Úkraínuforseti sagt borgina taktískt mikilvæga.

Forsetinn sagði í samtali við CNN að ef Bakhmut félli þá væri „opinn vegur“ fyrir Rússa að ná öðrum borgum á sitt vald. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×