Fótbolti

Ronaldo sendi heila flugvél eftir fund með ungum strák

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo er að gera flotta hluti hjá Al Nassr þessa dagana, bæði innan og utan vallar.
Cristiano Ronaldo er að gera flotta hluti hjá Al Nassr þessa dagana, bæði innan og utan vallar. Getty/Stringer

Cristiano Ronaldo lofaði sýrlenskum strák að hjálpa löndum hans á erfiðum tímum og stóð við það.

Ronaldo hitti unga strákinn fyrir síðasta leik Al Nassr í sádi-arabísku deildinni og lofaði að gera sitt til að aðstoða eftir hörmungarnar í síðasta mánuði.

Ronaldo sendi síðan heila flugvél með hjálpargögnum á jarðskjálftasvæðið í Tyrklandi og Sýrlandi. Ronaldo borgaði fyrir tjöld, lyf, hlý föt, sængurföt, mat og barnadót.

Talið er að yfir fimmtíu þúsund manns hafi farist í jarðskjálftunum sem varð 7,8 að stærð og hafði mikið áhrif í suðaustur Tyrklandi og norður Sýrlandi.

Mánuði eftir skjálftann er fjölda fólks enn saknað, mjög mörg eru slösuð eða heimilislaus.

Ronaldo, sem fór frá Manchester United til Al Nassr í nóvember, var valinn besti leikmaður febrúarmánaðar í sádi-arabísku deildinni eftir að hafa skorað átta mörk í fjórum leikjum.

Sýrlenski strákurinn Nabil Saeed óskaði eftir því að fá að hitta Ronaldo og var boðið á leik Al Nassr og Al Batin.

„Þegar ég sá Ronaldo þá hélt ég að þetta væri draumur. Ég trúði þessu ekki. Ég bið til guðs að þetta hafi ekki verið draumur. Ég vildi óska þess að allir gætu hitt Ronaldo. Hann er mjög góð manneskja,“ sagði Nabil Saeed.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×