Innlent

Öll minkaskinn seldust upp í Kaupmannahöfn

Kristján Már Unnarsson skrifar
Einar Einarsson á Syðra-Skörðugildi í Skagafirði er formaður loðdýradeildar Bændasamtaka Íslands.
Einar Einarsson á Syðra-Skörðugildi í Skagafirði er formaður loðdýradeildar Bændasamtaka Íslands. Baldur Hrafnkell Jónsson

Uppboð á minkaskinnum í Kaupmannahöfn í vikunni færir íslenskum loðdýrabændum vonarglætu á ný eftir sjö mögur ár. Öll skinn seldust upp og var meðalverð tólf prósentum hærra í dönskum krónum en í fyrra.

Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2. Mikil fækkun loðdýrabúa í landinu á undanförnum árum endurspeglar í raun hrun í greininni, þau voru yfir tuttugu talsins fyrir áratug, en núna eru aðeins níu minkabú eftir hérlendis.

Eitt stærsta búið er á Syðra-Skörðugildi í Skagafirði og þar býr formaður loðdýradeildar Bændasamtakanna, Einar Einarsson. Einar segir að frá árinu 2016 hafi verið mikill taprekstur og þegar covid-heimsfaraldurinn skall á fyrir þremur árum hafi skinn nánast hætt að seljast.

Íslensk minkaskinn frá Syðra-Skörðugili.Baldur Hrafnkell Jónsson

En núna segir Einar að skinnauppboð í Kaupmannahöfn í vikunni hafi fært loðdýrabændum jákvæðari tíðindi en þeir hafi heyrt um langt skeið. Öll skinn hafi selst upp á öllum uppboðsdögum og meðalverð hækkað um tólf prósent milli ára í dönskum krónum, sem geri fimmtán til átján prósenta hækkun í íslenskum krónum.

Einar segir hækkunina þó ekki duga, hún hefði þurft að vera meiri, en það að öll skinn skyldu hafa selst gefi von og sýni að atvinnulífið í kringum greinina sé komið aftur af stað eftir covid.

Tiltölulega fá íslensk skinn af eldri birgðum voru þó boðin upp í Kaupmannahöfn. Íslenskir loðdýrabændur bíða spenntari eftir uppboði í Finnlandi í næstu viku en þar verður stærsti hluti íslenskra minkaskinna af framleiðslu síðasta árs boðinn upp.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir

Loðdýrabændur brosa út að eyrum

Íslenskir loðdýrabændur upplifa nú fádæma góðæri og hefur hagnaður af búrekstrinum sjaldan eða aldrei verið jafnmikill. Á síðasta uppboði í Kaupmannahöfn á íslenskum minkaskinnum fékkst yfir tíu þúsund króna meðalverð. Framleiðslukostnaður á hverju skinni er hins vegar um sex þúsund krónur. Hreinn hagnaður nemur því um 40 prósentum af sölutekjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×