Erlent

Rússneskir öfgamenn réðust á þorp í Rússlandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Rússneski hópurinn sem lýst hefur yffir ábyrgð á árásinni vill kom aVladimír Pútín, forseta Rússlands, frá völdum.
Rússneski hópurinn sem lýst hefur yffir ábyrgð á árásinni vill kom aVladimír Pútín, forseta Rússlands, frá völdum. AP/Mikhail Metzel

Yfirvöld í Rússlandi segja hóp skemmdarverkamanna frá Úkraínu hafa gert árásir á þorp í Bryanskhéraði í Rússlandi. Hópur fjar-hægri Rússa sem er andvígur Vladimír Pútín, forseta Rússlands, hefur lýst yfir ábyrgð á atvikinu, sem Pútín hefur lýst sem hryðjuverki.

Rússar segja úkraínska þjóðernissinna hafa gert árásina en allt bendir til þess að það hafi verið rússneskur hópur sem gerði hana. Umræddur hópur og leiðtogar hans eru rússneskir og hafa verið virkir í fjar-hægri hreyfingum Evrópu á undanförnum árum og hafa tekið þátt í átökunum í Úkraínu og barist gegn Rússum.

Meðlimir hópsins kalla sig, lauslega þýtt, Rússnesku sjálfboðaliðasveitina, eða RDK og var hópurinn stofnaður í ágúst 2022, samkvæmt blaðamanni sem fylgst hefur náið með fjar-hægri hreyfingum Evrópu. Hópurinn er skipaður öfga-hægrimönnum og leiddur af þekktum nýnasista sem bjó um tíma í Þýskalandi.

Sá heitir Denis Kapustin og birti hann mynd af sér í Bryanskhéraði í morgun. Hann hefur haft tengsl við fjar-hægri öfl í Úkraínu. Hann var þó handtekinn fyrir framleiðslu fíkniefna árið 2018 og flúði til Þýskaland. Þar lenti hann einnig í vandræðum og var rekinn úr landi árið 2019. Á sama tíma var honum meinaður aðgangur að Schengen-svæðinu.

Í myndbandi sem hópurinn birti eftir árásina kölluðu leiðtogar hans eftir því að Rússar risu upp og kæmu Pútín frá völdum. Þeir vilja þó ekki koma á lýðræði í Rússlandi heldur eru þeir sagðir vilja koma afkomendum keisarafjölskyldu Rússlands eða rússnesku Rétttrúnaðarkirkjunni til valda.

Á samfélagsmiðlasíðum hópsins segir þó að markmið þeirra sé að koma á nýrri ríkisstjórn sem myndi ekki ráðast á nágranna Rússlands og þess í stað einbeita sér að málefnum innan landamæra Rússlands.

Samkvæmt Antifascist Europe eru meðlimir RDK um fimmtíu talsins.

Ríkismiðlar Rússlands segja meðlimi RDK hafa skotið á bíl með óbreyttum borgurum í Lubechan. Einn maður hafi dáið og tíu ára barn hafi særst. Mennirnir eru einnig sagðir hafa ráðist á þorpið Sushany.

Þá hefur RIA fréttaveitan upp úr tilkynningu frá FSB, leyniþjónustu Rússlands, að mikið magn sprengiefna hafi fundist í þorpinu.

AP fréttaveitan hefur eftir talsmanni herleyniþjónustu Úkraínu að árásin hafi verið gerð af Rússum. Úkraínumenn komi henni ekkert við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×