Fótbolti

Ekki refsað fyrir að minnast Atsu

Sindri Sverrisson skrifar
Mohammed Kudus og liðsfélagar hans í Ajax eftir að Kudus skoraði í gær. Hann slapp við spjald fyrir að fara úr liðstreyju sinni.
Mohammed Kudus og liðsfélagar hans í Ajax eftir að Kudus skoraði í gær. Hann slapp við spjald fyrir að fara úr liðstreyju sinni. Getty

Dómari í hollensku úrvalsdeildinni í fótbolta fór á svig við reglurnar til að sýna því virðingu þegar Mohammed Kudus minntist síns gamla félaga Christian Atsu.

Atsu fannst um helgina látinn undir húsarústum eftir jarðskjálftann skelfilega sem skók Tyrkland og Sýrland, og varð þúsundum manna að banna.

Kudus, sem er landsliðsmaður Gana líkt og Atsu var, skoraði í 4-0 sigri Ajax gegn Sparta Rotterdam í gær og fagnaði með því að fara úr treyjunni og sýna bol sem letrað var á R. I. P. Atsu, eða „hvíldu í friði Atsu“. Markið kom úr gullfallegri aukaspyrnu eins og sjá má hér að neðan.

Vanalega gefa dómarar gult spjald þegar leikmenn fagna með því að fækka fötum en í þetta sinn ákvað Pol van Boekel að aðhafast ekkert, þar sem að hann „skildi“ ástæður Kudus.

„Þetta er stærra en fótbolti. Þetta snýst um líf og dauða,“ sagði Kudus í viðtali við ESPN í Hollandi eftir leik.

„Dómarinn sagði að þetta væri ekki leyfilegt en hann skildi stöðuna. Ég er þakklátur honum fyrir þetta og hann fær alla mína virðingu,“ sagði Kudus sem vildi einfaldlega minnast landa síns, sem lék meðal annars með Chelsea, Newcastle og Everton á sínum ferli.

„Þetta var fyrir Christian. Það vita allir hvað gerðist í Tyrklandi. Ég ákvað að gera þetta því hann var mér klær. Þetta er auðvitað fyrir allar fjölskyldurnar sem þetta bitnar á.

Ég lærði margt af því að horfa á hann og hann gaf mér oft ráð. Allt sem ég lagði í leikinn í dag gerði ég fyrir hann. Ef að ég hefði ekki skorað þá hefði ég sýnt bolinn eftir leikinn,“ sagði Kudus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×