Erlent

Saka Rússa um glæpi gegn mannkyninu

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá jarðarför úkraínsks sjálfboðaliða sem féll í átökum við Rússa.
Frá jarðarför úkraínsks sjálfboðaliða sem féll í átökum við Rússa. AP/Emilio Morenatti

Yfirvöld í Bandaríkjunum segja hersveitir Rússa hafa framið glæpi gegn mannkyninu í Úkraína. Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna, opinberaði þetta í ræðu á öryggisráðstefnunni í München í dag og sagði nauðsynlegt að hinir seku yrðu dregnir til ábyrgðar fyrir glæpina.

„Hersveitir Rússa hafa markvisst og með kerfisbundnum hætti gert árásir á óbreytta borgara. Grimmileg morð, pyntingar, nauðganir og brottflutningur,“ sagði Harris. Hún nefndi einnig að borgarar hefðu verið teknir af lífi.

Sjá einnig: Pyntingar á pyntingar ofan

Eins og fram kemur í frétt AP fréttaveitunnar lýstu yfirvöld Bandaríkjanna því yfir í mars að Rússar hefðu gerst sekir um stríðsglæpi og að Bandaríkin myndu aðstoða við rannsókn þeirra glæpa. Sameinuðu þjóðirnar hafa einnig sakað Rússa um stríðsglæpi og sent rannsakendur til Úkraínu

Sjá einnig: Stríðsglæpir framdir á hersetnu svæðunum í Úkraínu

Ásökun um glæpi gegn mannkyninu er alvarlegri en munurinn felst í því að árásir á óbreytta borgara séu ítrekaðar og kerfisbundnar.

„Yfirvöld í Rússlandi hafa þvingað hundruð þúsundir manna frá Úkraínu til Rússlands, þar á meðal börn,“ sagði Harris. „Þeir hafa á grimmilegan hátt aðskilið börn frá foreldrum þeirra.“

Sjá einnig: Hafa rænt úkraínskum börnum í massavís

Máli sínu til stuðnings vísaði Harris til árásarinnar á leikhúsið í Maríupól, þar sem talið er að hundruð borgara hafi fallið, og til ódæða rússneskra hermanna í Bucha.

„Varðandi aðgerðir Rússa í Úkraínu, höfum við skoðað sönnunargögnin, við þekkjum lagalegu skilyrðin og það er enginn vafi. Þetta eru glæpir gegn mannkyninu,“ sagði Harris.

Harris sagði að alræðisstjórnir mættu ekki komast upp með árásir eins og árásir Rússa á Úkraínu og að ef Pútín næði markmiði sínu, myndu sambærilegar ríkisstjórnir mögulega einnig reyna að brjóta gegn alþjóðalögum og viðmiðum.

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem hann ítrekaði einnig að ódæði Rússa í Úkraínu væru kerfisbundin og að úkraínska þjóðin hefði þjáðst gífurlega vegna yfirvalda Rússlands.

Blinken sagði ómögulegt að leyfa mönnum að komast upp með þessa glæpi. Þeir yrðu að vera dregnir til ábyrgðar og það yrði gert, sama hve langan tíma það tekur.

Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, er einnig staddur í München. Hann sagði Rússa stunda þjóðarmorð á Úkraínumönnum því þeir viðurkenndu ekki tilvistarrétt Úkraínumanna.


Tengdar fréttir

„Davíð sigraði ekki Golíat með orðum“

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, ávarpaði í dag öryggisráðstefnuna í München þar sem hann kallaði eftir því að Vesturlönd flýttu vopnasendingum til Úkraínu og útveguðu Úkraínumönnum þau vopn sem þeir þyrftu til að sigra Rússa.

Í­trekar að Úkraínu­menn munu ekki gefa eftir land fyrir frið

Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti segir útilokað að Úkraínumenn munu gefa eftir land til Rússa til að koma á friði. Að láta undan myndi aðeins gera það að verkum að Rússar kæmu aftur og vildu meira. Vopn frá Vesturlöndum færðu Úkraínu nær friði.

Nánast allur rússneski herinn sagður í Úkraínu

Nærri því allur rússneski herinn, eða um 97 prósent hans, er nú í Úkraínu að sögn varnarmálaráðherra Bretlands. Hann segir Rússa hafa orðið fyrir miklu mannfalli og að Vladimír Pútín, forseti Rússlands, og leiðtogar hersins áttuðu sig ekki á raunveruleikanum og væri sama um það hve marga menn þeir misstu.

Eld­flaugum rignir á­fram yfir Úkraínu á meðan diplómatar ræða um frið

Mikilvægir innviðir skemmdust í Lviv í vesturhluta Úkraínu í morgun, í loftárásum Rússa. Yfirvöld þar sögðu eld hafa kviknað í kjölfarið en greiðlega virðist hafa gengið að slökkva hann. Íbúar hafa verið hvattir til að leita skjóls ef og þegar loftvarnaflautur fara í gang.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×