Innlent

Fundir hafnir hjá ríkissáttasemjara

Kjartan Kjartansson skrifar
Ástráður Haraldsson, settur ríkissáttasemjari í deilu Eflingar og SA, var tilbúinn að taka til óspilltra málanna í morgun.
Ástráður Haraldsson, settur ríkissáttasemjari í deilu Eflingar og SA, var tilbúinn að taka til óspilltra málanna í morgun. Vísir/Vilhelm

Fundarhöld eru hafin í húsakynnum ríkissáttasemjara í Borgartúni þar sem fulltrúar Eflingar og Samtaka atvinnulífsins freista þess að ná saman um kjarasamning um helgina.

Samkomulag náðist á milli Eflingar og SA um frestun allra verkfallsaðgerða í gærkvöldi. Frestunin gildir til miðnættis sunnudaginn 19. febrúar. Ástráður Haraldsson, settur ríkissáttasemjari í deilunni, sagði að markmiðið að ná samningi fyrir lok helgarinnar.

Fjölmiðlabann er í gildi og því er yfirlýsinga ekki að vænta frá samningsaðilunum í dag.

Ragnar Árnason, forstöðumaður vinnumarkaðssviðs SA, sagði í gærkvöldi að SA hafi óskað eftir lengri frestun á verkfallsaðgerðum. Hann vonaðist til þess að þeim yrði frestað lengur ef skriður kæmist á viðræðurnar um helgina.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sagði að einhugur hefði verið í samninganefndinni um að fresta verkfallsaðgerðum jafnvel þó að það hafi ekki verið auðveld ákvörðun.

Starfsmenn Eflingar á Íslandshótelum höfðu verið í verkfalli frá því í síðustu viku. Starfsmenn tveggja hótela til viðbótar auk olíuflutningabílastjóra lögðu niður störf í hádeginu á miðvikudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×