Fótbolti

Ten Hag ánægður með tíuna Weghorst

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Wout Weghorst komst vel frá sínu á Nývangi í gær.
Wout Weghorst komst vel frá sínu á Nývangi í gær. getty/David S. Bustamante

Erik ten Hag var ánægður með hvernig Wout Weghorst spilaði í nýrri stöðu þegar Manchester United gerði 2-2 jafntefli við Barcelona í umspili um sæti í útsláttarkeppni Evrópudeildarinnar í gær.

Ten Hag er framherji en spilaði sem fremsti miðjumaður í leiknum á Nývangi, eins og hann gerði seinni hluta leiks United og Leeds United í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn. Bruno Fernandes var á hægri kantinum hjá United í gær, Jadon Sancho á þeim vinstri og Marcus Rashford fremstur.

„Mér fannst þetta virka. Wout gerði vel í þessari stöðu eins og við vitum að hann getur,“ sagði Ten Hag.

„Þetta gaf okkur nýja vídd. Jadon og Bruno færðu sig inn í hálfsvæðin, fengu boltann og bakverðirnir fylgdu með. Við fengum nýja vídd og marga möguleika og hefðum átt að vinna leikinn.“

Öll mörkin í leiknum í gær komu í seinni hálfleik. Marcos Alonso kom Börsungum yfir á 50. mínútu en Rashford jafnaði tveimur mínútum seinna. Jules Kounde skoraði svo sjálfsmark á 59. mínútu og kom United yfir. Ralphinha jafnaði síðan fyrir Barcelona á 76. mínútu.

Liðin mætast aftur á Old Trafford á fimmtudaginn í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×