Erlent

Varar við að Rússar hyggi á valda­rán

Atli Ísleifsson skrifar
Maia Sandu er forseti Moldóvu.
Maia Sandu er forseti Moldóvu. Getty

Forseti Moldóvu hefur sakað Rússa um áætlanir um valdarán í Moldóvu með því að fá „erlenda skemmdarverkamenn“ til að steypa stjórninni í landinu.

Forsetinn Maia Sandu tilnefndi á föstudaginn nýjan forsætisráðherra, Dorin Recean, sem líkt og hún er hlynnt nánari samskiptum Moldóvu og Evrópusambandsins.

Sandu sagði að „ráðabruggið“ myndi fela í sér „mótmælaaðgerðir svokallaðarar stjórnarandstöðu“ sem myndi miða að því að kollvarpa stjórnskipan landsins, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins.

Innrás Rússa í Úkraínu hefur reynt mjög á Moldóvu, sem er eitt fátækasta ríki Evrópu og á landamæri að Rúmeníu og Úkraínu. Moldóva hlaut á síðasta ári stöðu umsóknarríkis hjá Evrópusambandinu.

Vólódýmír Selenskí Úkraínuvorseti greindi frá því í síðustu viku að leyniþjónusta Úkraínu hafi komist á snoðir um áætlanir rússneskra stjórnvalda að „eyðileggja Moldóvu“.

Sandu sagði að rússnesk stjórnvöld ætli að notast við „skemmdarverkamenn“ með hernaðarbakgrunn og klædda í borgaralegum fötum – rússneska, svartfellska, hvítrússneska og serbneska ríkisborgara – sem myndu efna til ofbeldisverka og ráðast á stofnanir ríkisins og taka fólk í gíslingu.

Hún hvatti þing landsins til að auka heimildir leyniþjónustu, öryggislögreglu og saksóknara til að geta barist gegn öllum slíkum áætlunum. Þá bætti hún við að tilraunir Rússlandsstjórnar til að efna til ofbeldis í landinu myndi mistakast.

Íbúar landsins telja um 2,6 milljónir og hefur innrás Rússa leitt til stóraukins straums flóttafólks til landsins. Þá hefur spenna verið mikil í Transnistríu, hérað í norðurhluta landsins þar sem meirihluti fólks er á bandi Rússlandsstjórnar. Þá eru um 1.500 rússneskir hermenn staðsettir í héraðinu.


Tengdar fréttir

Segja Rússa hafa misst heilt stórfylki við Vuhledar

Úkraínumenn segja Rússa hafa misst mikinn fjölda atvinnuhermanna í árásum á bæinn Vuhledar í Dónetsk héraði. Í raun hafi Rússar misst heilt stórfylki (Brigade) landgönguliða í árásum á bæinn en árásirnar hafa litlum sem engum árangri skilað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×