Fótbolti

Xavi getur bætt Guardiola metið á móti Man. United á fimmtudaginn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Xavi Hernandez er líflegur á hliðarlínunni sem þjálfari Barcelona.
Xavi Hernandez er líflegur á hliðarlínunni sem þjálfari Barcelona. Getty/Jose Breton

Xavi Hernández stýrði Barcelona liðinu til sigurs á Villarreal í spænsku deildinni í gær og með því náði liðið ellefu stiga forskoti á Real Madrid á toppi deildarinnar.

Þetta var ellefti sigur Barcelona í röð í öllum keppnum og með því jafnaði Xavi besta árangur Pep Guardiola á hans tíma sem þjálfari Börsunga.

Xavi var leikmaður í því liði en undir stjórn Pep vann Barcelona meðal annars fjórtán titla á árunum 2008 til 2012.

Barca liðið vann mest ellefu leiki í röð í öllum keppnum í þjálfaratíð Pep en það var 2008-09 tímabilið. Sú sigurganga endaði með 1-1 jafntefli á móti Basel í Meistaradeildinni eftir að liðið hafði ekki misstigið sig í tæpa tvo mánuði.

Næsti leikur Barcelona er á móti Manchester United á fimmtudaginn en liðin mætast þá á Nývangi í fyrri leik sínum í umspili um sæti í sextán liða úrslitum Evrópudeildarinnar.

Barcelona liðið hefur unnið 18 af 21 deildarleik og aðeins tapað einum. Börsungar hafa unnið síðustu sex deildarleiki eða alla leiki frá því að liðið gerði jafntefli við nágranna sína í Espanyol á Gamlársdag.

Barcelona hefur ekki unnið spænska meistaratitilinn síðan 2019 en síðustu þrír meistarar á Spáni hafi verið Real Madrid (2020 og 2022) og Atletico Madrid (2021). Börsungar urðu í öðru sæti í fyrra og 2020.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×