Fótbolti

Eftirmaður Erik ten Hag entist ekki út janúarmánuð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ajax Amsterdam liðið var búið að gera jafntefli í sex deildarleikjum í röð undir stjórn Alfred Schreuder.
Ajax Amsterdam liðið var búið að gera jafntefli í sex deildarleikjum í röð undir stjórn Alfred Schreuder. Getty/OLAF KRAAK

Hollensku meistararnir í Ajax Amsterdam hafa ákveðið að reka þjálfara sinn Alfred Schreuder en lokaleikur hans var jafnteflisleikur á móti Volendam í gærkvöldi.

Schreuder var rekinn eftir að Ajax lék sinn sjöunda deildarleik í röð án þess að vinna.

Schreuder tók við af Erik ten Hag þegar hann fór til Englands og tók við liði Manchester United. Ten Hag hefur gert góða hluti á Old Trafford og mikilvægi hans sést líka á óförum eftirmanns hans.

Schreuder fékk tveggja ára samning í maí og var því ekki hálfnaður með samning sinn.

Ajax er í fimmta sæti í hollensku deildinni, sjö stigum á eftir toppliði Feyenoord, þegar átján leikir eru búnir.

„Þetta er sársaukafull en nauðsynleg ákvörðun,“ sagði Edwin van der Sar, yfirmaður knattspyrnumála hjá félaginu.

„Þrátt fyrir góða byrjun þá höfum við tapað fullt af stigum óþarflega og þá er fótboltinn ótraustur líka,“ sagði Van der Sar.

„Vegna HM og langa vetrarfrísins þá gáfum við Alfred tíma og treystum því að þetta tæki tíma. Okkur varð síðan fullljóst að þetta var ekki að koma hjá honum,“ sagði Van der Sar.

Ajax liðið hefur ekki unnið í hollensku deildinni síðan liðið vann RKC Waalwijk 23. október síðastliðinn en síðustu sex leikir liðsins hafa endað með jafntefli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×