Enski boltinn

Stór hluti af Mudryk-peningunum fer til úkraínska hersins

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mykhaylo Mudryk með úkraínska fánann á Stamford Bridge.
Mykhaylo Mudryk með úkraínska fánann á Stamford Bridge. getty/Darren Walsh

Forseti Shakhtar Donetsk, Rinat Akhmetov, hefur greint frá því að stór hluti upphæðarinnar sem félagið fékk frá Chelsea fyrir Mykhalo Mudryk renni til úkraínska hersins og hans baráttu hans við innrásarlið Rússa.

Chelsea nánast stal Mudryk frá Arsenal og talið er að félagið borgi 88 milljónir punda fyrir hann þegar uppi verður staðið. Samkvæmt Akhmetov hafa þegar 20,5 milljónir punda farið til úkraínska hersins og fjölskyldur fórlamba stríðsins þar í landi. Það eru rúmir 3,5 milljarðar íslenskra króna.

„Í dag set ég til hliðar 20,5 milljónir punda til að hjálpa hermönnum, varnarliðinu og fjölskyldum þeirra. Peningurinn verður notaður til að greiða fyrir ýmislegt, meðal annars lækniskostnað og áfallahjálp,“ sagði Akhmetov.

Chelsea og Shakhtar ákváðu einnig að mætast í vináttuleik á Donbass Arena, heimavelli Shakhtar sem liðið hefur ekki spilað á síðan 2014.

Mudryk var kynntur til leiks hjá Chelsea í hálfleik í leik liðsins gegn Crystal Palace í gær. Hann hélt á úkraínska fánanum meðan hann stóð úti á vellinum. Chelsea vann leikinn, 1-0. Kai Havertz skoraði markið.

Kaldhæðni örlaganna er kannski sú að Roman Abramovich var gert að selja Chelsea í fyrra eftir innrás Rússa í Úkraínu. Tod Boehly keypti félagið af honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×