Erlent

Webb fann fyrstu fjarreikistjörnuna

Samúel Karl Ólason skrifar
LHS 475 b er í „einungis“ 41 ljósárs fjarlægð.
LHS 475 b er í „einungis“ 41 ljósárs fjarlægð. NASA, ESA, CSA, Leah Hustak (STScI)

Geimvísindamenn hafa í fyrsta sinn fundið fjarreikistjörnu með James Webb sjónaukanum (JWST). Umrædd reikistjarna kallast LHS 475 b og er í um 41 ljósárs fjarlægð. Hún er talin á stærð við jörðina en hún er nokkur hundruð gráðum heitari en jörðin.

Ákveðið var að beina Webb að LSH 475 eftir að gögn úr gervihnettinum Transiting Exoplanet Survey Satellite, eða TESS, bentu til þess að eitthvað væri þar að finna. Á vef NASA segir að með Webb hafi reynst auðvelt að finna reikistjörnuna en það var gert með því að beina Webb að stjörnunni og greina það þegar reikistjarnan skyggir á stjörnuna.

Gögnin úr Webb sýna að reikistjarnan fer í kringum sól sína á einungis tveimur dögum.

Hægt er að nota Webb til að gera litrófsgreiningu á andrúmslofti fjarreikistjarna og var það reynt í þessu tilfelli. Það hefur hins vegar ekki skilað árangri og er mögulegt að LSH 475 b hafi ekki andrúmsloft. Það er þó ekki ljóst enn.

Sjá einnig: Fordæmalaus sýn á andrúmsloft fjarreikistjörnu

Haft er eftir vísindamönnum sem komu að verkefninu að frekari rannsóknir verði gerðar á sólkerfinu og það veiti gott tækifæri til að læra um reikistjörnur í öðrum sólkerfum.

NASA opinberaði í gær að vísindamenn hefðu notað TESS til að finna tvær reikistjörnur á lífbeltinu svokallaða á braut um rauðan dverg í um hundrað ljósára fjarlægð.

Sjá einnig: Fundu tvær reikistjörnur á lífbelti fjarlægs dvergs

James Webb er stærsti og besti geimsjónauki sem hefur verið framleiddur og er honum meðal annars ætlað að varpa ljósi á uppruna alheimsins og taka hágæðamyndir af fjarlægum stjörnuþokum.

JWST nemur innrautt ljós og þarf hann að vera gífurlega kaldur til að virka rétt og svo geislun frá honum sjálfum trufli ekki skynjara sjónaukans.

Upprunalega stóð til að sjónaukinn myndi kosta einn til 3,5 milljarða dala og átti að skjóta honum á loft árið 2010. Honum var skotið á loft árið 2021 og kostaði í heild um tíu milljarða dala.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×