Innlent

Ákærður fyrir að hafa nauðgað tíu ára dreng

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Málið er til meðferðar hjá Héraðsdómi Reykjavíkur.
Málið er til meðferðar hjá Héraðsdómi Reykjavíkur. Vísir/Vilhelm

Karlmaður hefur verið ákærður fyrir að hafa með grófum hætti brotið kynferðislega á tíu ára dreng, við nokkur tilefni sumarið 2015. Brotin eru sögð hafa átt sér stað bæði utan- og innandyra.

Ákæran var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Karlmanninum er gefið að sök að hafa í nokkur skipti sumarið 2015 brotið á drengnum, beitt hann ólögmætri nauðung og nýtt yfirburðastöðu sína gagnvart honum.

Honum er gefin að sök nauðgun og kynferðisbrot gegn barni með því að hafa í nokkur skipti í húsnæði haft endaþarmsmök við drenginn þegar hann var einn með honum og beitti hann þannig ólögmætri nauðung við verknaðinn.

Hann er einnig sakaður um kynferðislega áreitni með því að hafa margsinnis, þegar hann glímdi við drenginn, þuklað á kynfærum hans bæði innan- og utanklæða. Þá hafi hann tekið um hönd drengsins, látið hann koma við kynfæri sín. Í eitt skipti hafi hann nuddað kynfærum sínum við rass og mjaðmasvæði drengsins þar sem hann stóð fyrir aftan hann.

Krafist er fimm milljóna króna í bætur fyrir hönd drengsins sem í dag er sautján ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×