Erlent

Selenskí segir drónaárásir Rússa verða langvarandi

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Volodýmír Selenskí Úkraínuforseti segir að Rússum muni ekki takast að draga úr baráttuþreki þjóðar sinnar.
Volodýmír Selenskí Úkraínuforseti segir að Rússum muni ekki takast að draga úr baráttuþreki þjóðar sinnar. EPA

Selenskí Úkraínuforseti sagði í reglulegu ávarpi sínu í nótt að Rússar ætli sér augljóslega að beita írönskum drónum í meira mæli næstu mánuðina til að draga stríðið á langinn og að ætlun þeirra sé að vona að Úkraínumenn missi baráttuþrekið.

Það muni þeim hinsvegar ekki takast og segir Selenskí að úkraínskar loftvarnir hafi nú þegar skotið niður fleiri en áttatíu slíka dróna frá áramótum. Fjörutíu minu hafa verið skotnir niður þar sem þeir voru á leið til höfuðborgarinnar Kænugarðs á sunnudag.

Úkraínski herinn segir að mikið af rússneskum hergögnum hafi eyðilagst í árásinni sem gerð var á skólabyggingu í borginni Makiivka á nýársdag, en árásin hefur vakið mikil viðbrögð í Rússlandi. Upphaflega sögðu Úkraínumenn að 400 rússneskir hermenn hefðu verið drepnir í árásinni en nú segja þeir að verið sé að leggja mat á mannfallið.

Rússar hafa sjálfir viðurkennt að 63 hermenn hafi fallið í árásinni, en þeir hafa aldrei áður viðurkennt svo mikið mannfall í einni árás síðan innrás þeirra hófst í febrúar á síðasta ári. Úkraínumenn segja að fjórar Himars eldflaugar hafi hitt skólann, sem notaður var sem bráðabirgða herstöð í bænum.


Tengdar fréttir

Sagðir hafa fellt hundruð Rússa í einni árás

Úkraínumenn eru sagðir hafa fellt hundruð rússneskra hermanna í einni árás í austurhluta Úkraínu á nýársnótt. Fregnir hafa borist af því að flugskeytum hafi verið skotið að skóla í bænum Makívka því þar hafi fjölmargir hermenn verið komnir saman.

Fyrstu á­rásirnar þegar hálf­tími var liðinn af nýja árinu

Rússar héldu árásum sínum áfram á Úkraínu í dag og var fyrstu flugskeytunum skotið á höfuðborgina Kænugarð þegar einungis um hálftími var liðinn af nýja árinu. Skotið var á byggingar í tveimur hverfum höfuðborgarinnar og er að minnsta kosti einn látinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×