Innlent

Brúneggjabræður áfrýja dómnum í málinu gegn RÚV og MAST

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Í Kastljóssþættinum var meðal annars fjallað um slæman aðbúnað dýra á starfsstöðvum Brúneggja.
Í Kastljóssþættinum var meðal annars fjallað um slæman aðbúnað dýra á starfsstöðvum Brúneggja. Getty

Bræðurnir Kristinn Gylfi og Björn Jónssynir hyggjast áfrýja dómi héraðsdóms Reykjavíkur í máli þeirra gegn Ríkisútvarpinu og Matvælastofnun til Landsréttar. Þetta staðfestir lögmaðurinn Viðar Lúðvíksson.

Það er Fréttablaðið sem greinir frá.

Málið varðar umfjöllun Kastljóss 28. nóvember 2016 um dýrahald og eggjaframleiðslu Brúneggja ehf. Fyrirtækið var í eigu bræðranna, sem höfðuðu málið í gegnum félögin Bala ehf. og Geysi-Fjárfestingafélag ehf.

Héldu bræðurnir því meðal annars fram að starfsmenn RÚV og MAST hefðu valdið Brúneggjum fjárhagslegu tjóni með saknæmri og ólögmætri háttsemi. Voru starfsmenn RÚV sakaðir um ómálefnalega umfjöllun og starfsmenn MAST um að hafa tjáð sig um fyrirtækið án þess að hafa til þess heimild.

Héraðsdómur komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að ekki væri annað að sjá en að rétt hafi verið farið með allar upplýsingar og staðreyndir í umfjöllun Kastljóss. Umfjöllunin hefði ekki verið óvægnari en gögn gáfu tilefni til og margt benti til þess að frumorsök tjóns Brúneggja væri hvernig staðið hefði verið að starfsemi félagsins.

Félögin tvö, Bali og Geysir, voru dæmd til að greiða RÚV og MAST samtals átta milljónir í málskostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×