Erlent

Úkraínskur dróni komst langt inn í Rúss­land

Árni Sæberg skrifar
Úkraínskir hermenn stýrðu drónum úr neðanjarðarbirgjum á jóladag.
Úkraínskir hermenn stýrðu drónum úr neðanjarðarbirgjum á jóladag. Libkos/AP

Rússneski herinn skaut niður úkraínskan dróna við Engels herflugvöllinn. Engels er um sex hundruð kílómetra austur af landamærum Rússlands og Úkraínu.

Herinn tilkynnti þetta í morgun og sagði jafnframt að þrír hermenn hafi látið lífið þegar brak drónans hrundi til jarðar. 

Engels herflugvöllurinn hýsir Tu-95 og Tu-160 sprengjuflugvélar sem notaðar hafa verið til að varpa sprengjum yfir Úkraínu. Talið er að á flugvellinum séu kjarnorkuvopn geymd. Þá segja Úkraínumenn að þaðan sé linnulausum flugskeytaárásum á innviði landsins, þar á meðal rafstöðvar og vatnsveitu, stýrt.

Úkraínumenn gerðu einnig árás á flugvöllinn í byrjun desember.

Þá hefndu Rússar sín með loftskeytaárásum á Úkraínu sem jöfnuðu heimili við jörðu og felldu almenna borgara, að því er segir í frétt AP um málið.


Tengdar fréttir

Rýnt í stöðuna í Úkraínu: Pútín segir stríðið lengra en hann bjóst við

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hefur viðurkennt að hin „sértæka hernaðaraðgerð“ eins og hann kallar innrás Rússa í Úkraínu, hefði staðið lengur yfir en hann bjóst við. Hins vegar hefði Rússum tekist að ná landsvæði og sagði hann að kjarnorkuvopn Rússlands hefðu komið í veg fyrir að átökin stigmögnuðust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×