Erlent

Fyrrverandi yfirmaður Roscosmos særðist í Donetsk

Samúel Karl Ólason skrifar
Einn er sagður hafa dáið í árásinni á hótelið í úhverfi Donetsk-borgar.
Einn er sagður hafa dáið í árásinni á hótelið í úhverfi Donetsk-borgar. AP/Alexei Alexandrov

Dmitry Rogozin, fyrrverandi yfirmaður Geimvísindastofnunar Rússlands, Roscosmos, og núverandi hernaðarráðgjafi í Donbas, er sagður hafa særst í loftárás Úkraínumanna í Doentsk-borg.

Rogozin, sem varð 59 ára gamall í gær, var sagður hafa verið að halda upp á afmæli sitt á hóteli í úthverfi borgarinnar með fleirum en hefur þvertekið fyrir það. Hann heldur því fram að hann hafi verið á fundi með öðrum meðlimum ráðgjafahópsins sem kallast Úlfar keisarans.

Frá því innrás Rússa í Úkraínu hófst í febrúar hefur Rogozin verið harður stuðningsmaður innrásarinnar og hefur hann verið áberandi á samfélagsmiðlum.

Pútín sagði honum upp sem yfirmanni Roscosmos í sumar en samkvæmt BBC var talið að hann ætti að fá háttsetta stöðu á yfirráðasvæði Rússa í austurhluta Úkraínu. Þess í stað hefur hann leitt áðurnefndan hóp ráðgjafa sem styður sveitir Rússa í Donetsk- og Luhansk-héruðum.

Rogozin er sagður hafa fengið sprengjubrot í sig í stórskotaliðsárásinni og ku ekki vera í lífshættu. Vitaly Khotsenko, einn af leppstjórum Rússa í Úkraínu, er einnig sagður hafa særst en einn mun hafa dáið í árásinni.

Hér má sjá myndband sem sýnir hótelið eftir árásina. Rigozin segist hafa dvalið lengi á hótelinu.

Rússar tóku Donetsk-borg árið 2014 en þeim hefur ekki tekist að reka Úkraínumenn frá borginni á þessu ári. Víglínurnar nærri Donetsk hafa lítið hreyfst frá því innrás Rússa hófst í febrúar.

Bakhmut er meðal þeirra bæja og borga sem eru nærri Donetsk en þar hafa harðir bardagar geisað undanfarnar vikur.

Hersveitum Rússa hefur ekki tekist að brjóta varnir Úkraínumanna á bak aftur, þrátt fyrir hægan framgang. Miðað við enn óstaðfestar fregnir virðist þó sem sókn Rússa við bæinn hafi verið alfarið stöðvuð. Rússar hafa þó einnig reynt að sækja fram norður og suður af bænum með því markmiði að umkringja hann.

Það hefur einnig gengið hægt og eru Rússar sagðir hafa orðið fyrir gífurlegu mannfalli við Bakhmut.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×