Erlent

Aug­­lýsinga­her­­ferð sýnir glæstan lífs­­stíl rúss­neskra her­manna

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Á myndinni má sjá rússneska hermenn í „Rússneska sérsveitarskólanum.“
Á myndinni má sjá rússneska hermenn í „Rússneska sérsveitarskólanum.“ Getty/Aleksandrov

Ný auglýsingaherferð Rússa sýnir ungan mann kaupa sér glænýjan bíl fyrir peningana sem hann fékk fyrir þátttöku í innrásinni í Úkraínu. Yfirvöld í Rússlandi halda áfram að sækja fleira fólk í herinn þrátt fyrir að hafa sagt að til væri feykinóg af hermönnum.

Myndband sem birt var nýlega sýnir mann sem valdi að berjast í Úkraínu í staðinn fyrir að djamma með vinum sínum. Því næst kom hann öllum vinunum á óvart með því að sýna þeim bíl sem hann keypti fyrir launin.

Annað myndband fjallar um konu, sem hafði hætt með kærasta sínum, en þrábiður hann að taka upp þráðinn að nýju eftir að hann gerðist hermaður. Hún á að hafa verið yfir sig hrifin af hugrekki mannsins.

Fleiri myndbönd sýna yfirburði rússneskra manna sem kjósa að „verja land sitt“ í staðinn fyrir að flýja til Georgíu - eða gera eitthvað allt annað en að berjast. Mennirnir, sem ganga í herinn, sjást til dæmis hjálpa gömlum konum með búðarpoka.

Vladímír Pútín Rússlandsforseti kvaddi yfir þrjú hundruð þúsund manns í herinn fyrr á árinu og hafa þúsundir þegar flúið landið, hræddir um herkvaðningu. Fyrr í mánuðinum sagði Pútín að ekki stæði til að fá fleiri menn í herinn en nýja auglýsingaherferðin virðist sýna breyttar áherslur. CNN greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×