Fótbolti

Benzema neitaði að fara um borð í forsetaflugvél Emmanuel Macron

Andri Már Eggertsson skrifar
Benzema á æfingu í aðdraganda HM
Benzema á æfingu í aðdraganda HM Vísir/Getty

Karim Benzema meiddist í aðdraganda heimsmeistaramótsins og gat ekki tekið þátt með Frökkum á mótinu. Frakkland leikur til úrslita í dag gegn Argentínu. Karim Benzema hafnaði boði forseta Frakklands um að fara í forsetaflugvél til Katar og sjá úrslitaleikinn.

Karim Benzema sem er handhafi Gullboltans varð fyrir því óláni að meiðast nokkrum dögum fyrir fyrsta leik Frakklands á heimsmeistaramótinu. Meiðsli Benzema hafa ekki haft mikil áhrif á Frakka sem eru komnir í úrslitaleikinn á heimsmeistaramótinu í Katar.

Eftir að Karim Benzema var sendur heim frá Katar hefur hann hætt öllum samskiptum við teymi Frakklands sem vildi halda honum í hópnum ef hann skyldi ná sér af meiðslunum en Didier Deschamps, þjálfari Frakklands var ekki á sama máli.

 

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, bauð Karim Benzema að ferðast með sér á einkaflugvél til Katar og sjá úrslitaleikinn gegn Argentínu en Benzema hafnaði því boði. Laurent Blanc og Michel Platini höfnuðu einnig sama boði frá Emmanuel Macron.

  

Didier Deschamps, þjálfari Frakklands, vildi lítið tjá sig um að Karim Benzema myndi ekki mæta á úrslitaleikinn.

„Ég sé ekki um boðsmiða á úrslitaleikinn fyrir meidda leikmenn og fyrrum leikmenn. Sumir verða á leiknum aðrir ekki,“ sagði Didier Deschamps á blaðamannafundi í gær. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×