Handbolti

„Mér líður alls ekki vel“

Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson skrifar
Þórir Ólafsson, þjálfari Selfyssinga, var ekki sáttur eftir leik.
Þórir Ólafsson, þjálfari Selfyssinga, var ekki sáttur eftir leik. Vísir/Diego

Þórir Ólafsson, þjálfari Selfoss, var skiljanlega ekki eins glaður og Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR, þegar hann ræddi við undirritaðan í leikslok. Leiknum lauk með sex marka sigri ÍR sem þýðir að Selfoss er fallið úr leik í Coca Cola-bikar karla í handbolta.

„Mér líður alls ekki vel. Það er virkilega sárt að detta út úr bikar. Það er stutt leið að titli og gaman að komast í höllina. Þessi frammistaða í dag sýndi að við áttum ekki skilið að fara áfram,“ sagði Þórir.

Voru þetta óvænt úrslit?

„Menn eru kannski að horfa á einhverja töflu og síðasta leik á milli þessara liða. En við höfum séð að ÍR-ingar eru búnir að spila vel og bæta sig mikið. Við mættum ekki nógu grimmir og ÍR vildi þetta meira. Seinni hálfleikurinn var arfaslakur af okkar hálfu.“

„Við brotnuðum bara. Við vorum búnir að tala um það að brotna ekki í mótlæti, en það vantaði meiri neista og samstöðu. Þetta var ekki til fyrirmyndar hjá okkur í dag. Ég óska ÍR til hamingju en við erum virkilega svekktir.“

Hvernig ætla Selfyssingar að nýta pásuna löngu sem framundan er?

„Sem best. Menn eru tjónaðir og þreyttir eftir langa períódu núna. Við ætlum að nýta pásuna í frí og æfingar, og bara að bæta það sem þarf að bæta. Það eru alltaf einhverjir hlutir sem hægt er að vinna í. Við höldum áfram að gera það,“ sagði Þórir áður en haldið var upp í rútu til baka á Selfoss.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×