Handbolti

„Frá­bært að fá fleiri gaura inn í systemið“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Janus Daði Smárason segir að það hafi ekkert komið á óvart í leik Grikkja.
Janus Daði Smárason segir að það hafi ekkert komið á óvart í leik Grikkja. Vísir/Vilhelm

Landsliðsmaðurinn Janus Daði Smárason var heilt yfir ánægður með leik íslenska karlalandsliðsins í handbolta eftir öruggan níu marka sigur gegn Grikkjum í undankeppni EM 2026 í dag.

„Við gerðum bara það sem ætlast var til af liðinu og mættum til leiks í byrjun, spiluðum góða vörn og náðum að hlaupa á þá. Þetta var bara góður sigur,“ sagði Janus í viðtali við RÚV eftir leik.

Alls voru átta leikmenn íslenska liðsins sem voru með liðinu á HM í janúar fjarverandi og tveir að auki sem eru alla jafna hluti af liðinu. Janus segir liðið hafa leyst vel úr þessari svokölluðu manneklu.

„Maður er kannski ekkert með margar mínútur með öllum í hópnum og þú finnur það alveg. En við gerðum þetta bara vel og erum líka að breikka hópinn okkar með þessu. Það er frábært að fá fleiri gaura inn í systemið. Svo erum við líka bara að reyna að búa til eitthvað og mér fannst við halda áfram að gera það í dag.“

Þá segir Janus að gríska liðið hafi ekki gert neitt sem kom á óvart í leik dagsins.

„Nei,“ sagði Selfyssingurinn einfaldlega er hann var spurður út í hvort Grikkirnir hefðu komið íslenska liðinu á óvart.

Ísland og Grikkland mætast öðru sinni í Laugardalshöll næstkomandi laugardag og Janus býst við að uppleggið verði svipað þá.

„Við getum alveg tekið fullt af atriðum úr þessum leik sem við hefðum getað gert enn betur. En bara að komast heim og spila í höllinni fyrir framan okkar fólk og bara labba í burtu með gott bragð í munninum,“ sagði Janus að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×