Handbolti

Danski dómarinn aftur á börum af velli

Sindri Sverrisson skrifar
Jesper Madsen fór á börum af velli í leik Veszprém og Sporting í Meistaradeild Evrópu í Ungverjalandi 20. febrúar. Sagan endurtók sig í gær.
Jesper Madsen fór á börum af velli í leik Veszprém og Sporting í Meistaradeild Evrópu í Ungverjalandi 20. febrúar. Sagan endurtók sig í gær. EPA-EFE/Tamas Vasvari

Í annað skiptið á skömmum tíma fékk danski dómarinn Jesper Madsen aðsvif og var fluttur á börum af velli, þegar Álaborg og lærisveinar Arnórs Atlasonar í Team Tvis Holstebro mættust í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta í gær.

Madsen lagðist niður á gólfið þegar seinni hálfleikur var um það bil hálfnaður og lærisveinar Arnórs nýbúnir að komast í 24-22. Spenna var því í leiknum og fjölmennt í höllinni.

Madsen var með meðvitund allan tímann en hann var fluttur af velli á börum og félagi hans, Mads Hansen, dæmdi einn það sem eftir var af leiknum sem lauk með 30-29 sigri Álaborgar.

Myndband af atvikinu má sjá á vef TV 2 í Danmörku.

Madsen var einnig borinn af velli í leik í Meistaradeild Evrópu 20. febrúar, á milli Íslendingaliðanna Veszprém og Sporting.

„Miðað við það sem gerðist í Veszprém, þegar það leið næstum yfir hann í fyrsta skipti, þá líður honum verr í dag. Hann svimar svolítið meira. Hann situr úti í sjúkrabíl og er búinn að kasta upp. Hann virðist meira dasaður en síðast,“ sagði Mads Hansen í viðtali við TV 2 eftir að leiknum lauk.

Hann sagði að búið væri að athuga hvort að um hjartavandamál væri að ræða en að svo virtist ekki vera. Madsen var svo fluttur á sjúkrahús í Álaborg til frekari rannsókna.

Hansen, sem eins og fyrr segir kláraði að dæma leikinn í gær einn, segist hafa haft meiri áhyggjur núna en í leiknum í Ungverjalandi. Madsen sagðist sjálfur eftir þann leik aldrei hafa lent í neinu svipuðu.

„Mér leið vel í aðdraganda leiksins. Það var ekkert að í þessar 29 mínútur sem ég dæmdi en svo var ég að líta upp og þegar ég ætlaði að horfa beint áfram þá fékk ég þessa tilfinningu sem maður fær þegar maður stendur upp of hratt, og hún hætti bara ekki,“ sagði Madsen eftir leikinn í Veszprém. Þá fannst engin ástæða fyrir því hvernig Madsen leið og allar mælingar komu vel út fyrir utan að blóðþrýstingurinn var aðeins of hár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×