Handbolti

Hart barist um að fylgja Ís­landi á EM

Sindri Sverrisson skrifar
Bosníumenn börðust vel gegn Íslandi í Laugardalshöll í nóvember en urðu að sætta sig við tap.
Bosníumenn börðust vel gegn Íslandi í Laugardalshöll í nóvember en urðu að sætta sig við tap. vísir/Anton

Íslenska karlalandsliðið í handbolta getur núna formlega tryggt sér farseðilinn á EM með sigri gegn Grikklandi í Laugardalshöll á laugardaginn. Hörð barátta er hins vegar um að fylgja Íslandi upp úr 3. riðli undankeppninnar.

Ísland vann stórsigur gegn Grikklandi í gær og er efst í riðlinum með sex stig eftir þrjár umferðir af sex, því áður hafði liðið unnið Bosníu og Georgíu.

Grikkland, Bosnía og Georgía eru hins vegar öll jöfn með tvö stig, eftir að Georgía hafði betur gegn Bosníu í Tbilisi í dag, 28-26. 

Giorgi Tskhovrebadze var markahæstur hjá Georgíu með ellefu mörk en Mislav Grgic skoraði tíu fyrir Bosníu.

Tvö efstu lið riðilsins komast beint á EM en liðið í 3. sæti gæti einnig komist á mótið. Fjögur lið með bestan árangur í 3. sæti, í undanriðlunum átta, komast á EM.

Ef Ísland vinnur Grikkland á laugardaginn er ekki mögulegt að strákarnir okkar lendi neðar en í 2. sæti. Búast má við að þeir endi í efsta sætinu. Þeir ljúka undankeppninni á útileik við Bosníu 7. maí og heimaleik við Georgíu 11. maí.

Íslandi hefur þegar verið úthlutað sæti í F-riðli EM sem spilaður verður í Kristianstad. Komist liðið í milliriðlakeppni mun það spila í Malmö. Svíþjóð, Noregur og Danmörk halda mótið saman og fer það fram frá 15. janúar til 1. febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×