Fótbolti

Van Gaal gerði stjörnuna vandræðalega: „Núna kyssumst við á munninn“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Louis van Gaal og Memphis Depay sem varð vandræðalegur við ummæli stjórans.
Louis van Gaal og Memphis Depay sem varð vandræðalegur við ummæli stjórans. Skjáskot

Louis van Gaal gefur lítið fyrir gagnrýni Ángels Di María sem var rifjuð upp fyrir honum á blaðamannafundi fyrir leik Hollands og Argentínu í dag.

Holland og Argentína eigast við í 8-liða úrslitum heimsmeistaramótsins á morgun. Þar mun Ángel Di María, leikmaður Argentínu, mæta sínum fyrrum stjóra, Louis van Gaal, sem stýrir Hollandi.

Van Gaal var stjóri Manchester United þegar félagið keypti Di María dýrum dómi frá Real Madrid á Spáni árið 2014 en sá argentínski fann sig ekki í Manchester-borg og entist aðeins í eina leiktíð áður en hann fann fjölina hjá Paris Saint-Germain ári síðar.

Haft var eftir Di María eftir dvöl hans í Englandi að van Gaal væri versti stjóri sem hann hefði haft á ferlinum. Van Gaal var beðinn um svör við þeim ummælum á blaðamannafundi í dag.

„Sagði Di María að ég væri versti stjóri sem hann hefði haft? Hann er einn af fáum sem er á þeirri skoðun. Mér þykir þetta leiðinlegt og sorglegt að hann hafi sagt þetta,“

„En hér hjá mér situr Memphis [Depay, leikmaður Hollands og fyrrum leikmaður Man Utd]. Hann var einnig í Manchester og spilaði lítið. Og nú kyssumst við á munninn. Við ætlum ekki að gera það hér, en svona er þetta stundum í boltanum,“ sagði van Gaal á fundinum í dag.

Vel fór á með þeim félögum á fundinum.Cathrin Mueller - FIFA/FIFA via Getty Images

Memphis Depay, leikmaður Hollands, sat þá honum við hlið og varð býsna vandræðalegur við ummæli stjórans.

Depay kom til Manchester sama sumar og Di María yfirgaf félagið, árið 2015, en hann fann sig ekki heldur og entist aðeins í eina og hálfa leiktíð hjá liðinu.

Holland og Argentína keppast um sæti á 8-liða úrslitum HM annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×