Erlent

Segjast hvorki hafa hvatt né stutt Úkraínu til árása í Rússlandi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Blinken neitaði aðkomu Bandaríkjanna að árásunum í Rússlandi.
Blinken neitaði aðkomu Bandaríkjanna að árásunum í Rússlandi. Vísir/Vilhelm

„Við höfum hvorki hvatt Úkraínumenn né stutt þá til að gera árásir í Rússlandi,“ sagði Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í samtali við blaðamenn í gær. Stjórnvöld í Kænugarði hafa ekki lýst árásunum á hendur sér.

Fregnir hafa borist síðustu daga af drónaárásum á hernaðarlega mikilvæg skotmörk í Rússlandi, fjarri landamærum Úkraínu. Kenningar eru á lofti að um sé að ræða langdræga dróna þróaða af Úkraínumönnum en stjórnvöld í Úkrainu hafa hvorki sagst bera ábyrgð á árásunum né neitað að hafa staðið að þeim.

Bandaríkjamenn hafa ekki viljað sjá Úkrainumönnum fyrir langdrægum vopnum, af ótta við að árásir Úkraínumanna á skotmörk í Rússlandi myndu draga Atlantshafsbandalagið inn í átökin.

Mariusz Blaszczak, varnarmálaráðherra Póllands, sagði á Twitter í gær að unnið væri að uppsetningu Patriot-loftvarnakerfis í eigu Þjóðverja í Póllandi, eftir að stjórnvöld í Berlín höfnuðu hugmyndum um að koma kerfinu upp í Úkraínu.

Blaszczak sagðist harma ákvörðun Þjóðverja, þar sem staðsetning kerfisins í Úkraínu hefði varið bæði Úkraínu og Pólland en sagði unnið að því að tengja kerfið við hernaðarkerfi Póllands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×