Skoðun

Óvenju mikið svigrúm til launahækkana

Stefán Ólafsson skrifar

Spáð er 6-7% hagvexti í ár. Árið í fyrra skilaði 4,4% hagvexti. Þetta eru góð hagvaxtarár og árið í ár nálgast uppgripaárið mikla 2007. Hagvöxturinn sýnir vöxt þjóðarframleiðslunnar sem til skipta er. Allar vísbendingar eru um mjög góða afkomu fyrirtækjanna og stefnir í met arðgreiðslur til eigenda þeirra á þessu ári.

Við 6% hagvöxt og um 3% fólksfjölgun má búast við um 3% hagvexti á mann. Það segir okkur nokkurn veginn hver framleiðniaukningin er. Í venjulegu árferði er lágmark að framleiðniaukning skili sér í kaupmáttaraukningu launafólks.

Hagkerfið á því að þola um 3% kaupmáttaraukningu án þess að setja pressu á innlenda verðbólgu. Ef launafólk fær ekki kaupmáttaraukningu sem þessu nemur þá mun hlutur fjármagnseigenda af verðmætasköpuninni í landinu aukast, á kostnað launafólks.

Á næsta ári er gert ráð fyrir mikilli fjölgun erlendra ferðamanna (fari úr 1,7 milljónum 2022 í um 2,4 milljónir 2023). Það mun bæta verulega í hagvöxtinn. Vinnumálastofnun gerir ráð fyrir met eftirspurn eftir vinnuafli næsta sumar. Staða útflutningsgreina er sterk. Horfur fyrir næstu ár eru því góðar hér á landi, betri en spáaðilar gera ráð fyrir, að óbreyttu ástandi heimsmála.

Hins vegar segja atvinnurekendur og Seðlabankinn að rúmlega 9% verðbólga kalli á kaupmáttarrýrnun launafólks. Á því er engin þörf. Sú verðbólga sem nú er kemur að tveimur þriðju erlendis frá. Mistök við hagstjórn húsnæðismála, sem Seðlabankinn á stóran þátt í, eru stærsti hluti annarra orsaka verðbólgunnar. Lækkun kaupmáttar launafólks hefur nær engin áhrif á þessa verðbólgu, en hún myndi stórauka arðgreiðslur til eigenda fyrirtækjanna, sem eru mjög miklar fyrir.

Verðbólgan sem kemur erlendis frá mun lækka þegar aðstæður batna þar. Raunar hafa þær verðhækkanir á olíu og matvælum á heimsmarkaði sem urðu strax í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu þegar gengið til baka. Íslensk fyrirtæki eiga hins vegar eftir að skila þeim betur til neytenda. Eldsneyti á bíla ætti t.d. að vera komið niður í um 260-270 kr. á lítra, en er vel yfir 300 kr.

Allir þurfa að muna að það er þjóðarkakan sem er til skiptanna í kjarasamningum, en ekki verðbólgan. Og svigrúm til launahækkana er óvenju gott nú.

Höfundur er pófessor emeritus við HÍ og starfar sem sérfræðingur hjá Eflingu - stéttarfélagi.




Skoðun

Sjá meira


×