Viðskipti innlent

Ásdís og Katla taka við rekstri Lovísu

Bjarki Sigurðsson skrifar
Katla Sif Friðriksdóttir (t.v.) og Ásdís Bjarkadóttir eru nýir eigendur kynlífstækjaverslunarinnar Lovísu.
Katla Sif Friðriksdóttir (t.v.) og Ásdís Bjarkadóttir eru nýir eigendur kynlífstækjaverslunarinnar Lovísu.

Ásdís Bjarkadóttir og Katla Sif Friðriksdóttir hafa gengið frá kaupum á kynlífstækjaversluninni Lovísu. Þær taka við rekstrinum af stofnanda verslunarinnar, Jóni Þór Ágústssyni, sem ætlar að einbeita sér að öðrum verkefnum. 

Söluferlinu lauk fyrir nokkrum dögum á síðan og hafa Ásdís og Katla nú þegar hafist handa í versluninni. Þær segja að þrátt fyrir að þetta sé ekki eitthvað sem þær sáu fyrir sér í framtíðarplönunum sé þetta spennandi tækifæri. 

„Við erum að taka við fyrirtæki sem er afskaplega vel rekið og við sjáum fullt af tækifærum til að vaxa frekar svo við urðum að stökkva á þetta. Þó svo að við séum að taka við á einum annasamasta tíma netverslana,“ er haft eftir Ásdísi í tilkynningu. 

Katla segir að þær vilji halda uppi þeirri góðu þjónustu sem fyrri eigendur gerðu svo vel í að gera. 

„Viðskiptavinir sækja í þjónustuna og auðvitað lága verðið. Þó svo að samkeppnin sé mikil á þessum markaði trúum við að það sé pláss fyrir okkur og okkar hugsjónir. Nú er komið að okkur að standa okkur,“ segir Katla.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×