Innlent

Bæjarstjóri Ölfuss spáir því að íbúar verði tíu þúsund innan fimmtán ára

Kristján Már Unnarsson skrifar
Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss. Arnar Halldórsson

Bæjarstjóri Ölfuss spáir því að íbúafjöldi sveitarfélagsins geti fimmfaldast á næstu fimmtán árum og Þorlákshöfn orðið tíu þúsund manna bær. Lykillinn er stækkun hafnarinnar en hafnarframkvæmdirnar þar eru þær mestu í landinu um þessar mundir.

Í fréttum Stöðvar 2 og í þættinum Um land allt mátti sjá flutningaskip Smyril-Line, Akranes, sigla inn til Þorlákshafnar frá Rotterdam. Siglingar færeyska skipafélagsins frá Evrópu hófust fyrir fimm árum með einu skipi á viku, þau eru núna orðin þrjú á viku. Segullinn er staðsetning gagnvart Reykjavík.

Hákon Hjartarson er svæðisstjóri Smyril Line í Þorlákshöfn.Arnar Halldórsson

„Þetta náttúrlega styttir leiðina til Evrópu. Þetta er sólarhringur, fram og til baka, að sigla leiðina fyrir Reykjanesið. Við erum að ná að sigla til Rotterdam á tveimur og hálfum sólarhring,“ segir Hákon Hjartarson, svæðisstjóri Smyril Line.

Þorlákshöfn hefur á skömmum tíma orðið ein umsvifamesta vöruhöfn landsins. Til að mæta þörfinni er verið að lengja aðalhafnargarðinn, dýpka höfnina og endurnýja bryggjur. Suðurverk annast lengingu hafnargarðsins og breytingu á Suðurvararbryggju en Hagtak endurnýjun Svartaskersbryggju.

Séð yfir hafnarsvæðið í Þorlákshöfn.Arnar Halldórsson

Áætlað er að hafnarframkvæmdirnar muni kosta fjóra til fimm milljarða króna. Eftir þær mun höfnin geta tekið við mun stærri skipum. Í stað allt að 130 metra langra skipa munu fast að 200 metra löng skip geta nýtt höfnina.

Benjamín Ómar Þorvaldsson, settur hafnarstjóri, sér höfnina eflast enn frekar.

„Hér er alveg nægt landrými og við getum stækkað hérna í allar áttir,“ segir Benjamín Ómar.

Benjamín Ómar Þorvaldsson, settur hafnarstjóri í Þorlákshöfn.Arnar Halldórsson

Miklar framkvæmdir eru við fiskeldi sem og við smíði íbúða en bæjarstjórinn Elliði Vignisson segir hundruð íbúða í byggingu. Íbúafjöldi Þorlákshafnar nálgast tvöþúsund en árleg fjölgun er óvíða meiri.

„Það er svona sex til níu prósenta fjölgun á íbúum. Samfélagið er að yngjast,“ segir Elliði.

„Það er vegna þess að svona hefðbundin fjölskylda sem hingað flytur, hún kemur mjög gjarnan af höfuðborgarsvæðinu, og er með svona tvö til þrjú börn á leik- og grunnskólaaldri.

Og þegar samfélag er að stækka svona hratt, eins og við erum að gera, þá þarf að hafa augun mjög fast á boltanum til að tryggja fræðslumál og félagsþjónustu.“

Nýr leikskóli er í smíðum og stækkun grunnskólans áformuð. Og þegar við biðjum bæjarstjórann að spá um fjölgun íbúa næstu árin svarar hann:

„Ég sé fyrir mér að innan fimm ára þá verði þeir orðnir allavega svona 3.500 íbúar hérna.

Innan 10-15 ára, þetta sveitarfélag verður orðið sjö til tíu þúsund manna sveitarfélag,“ segir bæjarstjóri Ölfuss.

Þáttinn Um land allt má nálgast á streymisveitunni Stöð 2+.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×