Erlent

Benda hvor á annan eftir sprengingar við kjarn­orku­verið

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Kjarnorkuverið í Zaporizhzhia.
Kjarnorkuverið í Zaporizhzhia. Metin Aktas / Anadolu Agency

Rússar og Úkraínumenn benda hvorir á aðra eftir að sprengingar urðu við kjarnorkuverið Zaporizhzhia í Úkraínu og svæði í kringum það í dag og í gær. Úkraínumenn segja Rússa hafa ætlað sér að koma í veg fyrir raforkuframleiðslu. Rússar segja að kjarnorkuverið hafi orðið fyrir árásum af völdum úkraínska hersins.

Kjarnorkustofnun Úkraínu segir að kjarnorkuverið og svæðið þar í kring hafi orðið fyrir minnst tólf skotum. Segir stofnunin að sprengjurnar hafi lent á ýmsum kerfum sem séu nauðsynleg til þess að framleiða raforku. Raunar hafi árásin miðast að því að skemma nákvæmlega þau kerfi sem þörf sé á til að hefja raforkuframleiðslu að nýju í tveimur kjörnum kjarnorkuversins.

Rússneska varnarmálaráðuneytið segir hins vegar að rekja megi allt þetta til úkraínska hersins. Hann hafi skotið af fallbyssum og öðrum byssum í grennd við Dnipro í Úkraínu. Rússneski herinn hafi aðeins verið að svara því.

Alþjóðaorkumálastofnunin hefur greint frá því að öflugar sprengingar hafi mælst við kjarnorkuverið í dag og í gær. Ekki er þó talið að sprengingarnar ógni öryggi kjarnorkuversins eða geislavirkra efna sem þar má finna.

Volodómír Selenskí Úkraínuforseti sagði á dögunum að linnulausar árásir Rússa á innviði landsins hafi gert það að verkum að nú séu tíu milljónir Úkraínumanna án rafmagns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×