Fótbolti

Segist þekkja mismunun því hann var rauðhærður með freknur

Smári Jökull Jónsson skrifar
Infantino skaut föstum skotum að Evrópu í einræðu sinni á blaðamannafundi í Katar í morgun.
Infantino skaut föstum skotum að Evrópu í einræðu sinni á blaðamannafundi í Katar í morgun. Vísir/Getty

Gianni Infantino, forseti FIFA, hélt fjörtíu mínútna einræðu á blaðamannafundi í Katar í morgun þar sem hann sakaði Evrópubúa um hræsni í gagnrýni sinni gagnvart mótshöldurum. Þá bað hann um að fólki yrði leyft að njóta þess að fylgjast með heimsmeistaramótinu.

Blaðamannafundur Gianni Infantino, forseta alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA, í Katar í morgun hefur vakið mikla athygli. 

Í aðdraganda mótsins hefur FIFA fengið mikla gagnrýni vegna ákvörðunarinnar um að halda mótið í Katar þar sem aðstæður farandverkamanna sem unnu að uppbyggingu í Katar hefur verið í sviðsljósinu sem og réttindi hinsegin fólks. Talið er að mörg þúsund farandverkamenn hafi látið lífið í Katar í undirbúningi landsins fyrir heimsmeistaramótið.

Á fundinum fór Infantino mikinn í nærri fjörtíu mínútna langri einræðu og sagði Evrópubúa hafa sýnt af sér hræsni í gagnrýni sinni gagnvart mótshöldurum.

„Við höfum fengið margar kennslustundir frá sumum Evrópubúum, frá hinum vestræna heimi. Ég held að Evrópubúar ættu að biðjast afsökunar næstu þrjú þúsund árin fyrir það sem við höfum verið að gera undanfarin þrjú þúsund ár, áður en við kennum öðrum siðferði.“

„Það eru ákveðnir hlutir í Katar sem eru ekki að virka og þá þarf að ræða. En þessar einhliða kennslustundir í siðferði eru ekkert nema hræsni.“

Í upphafi ræðunnar setti Infantino sig í spor ýmissa annarra og sagði að hann þekkti þá tilfinningu að vera mismunað sem erlendur aðili í erlendu landi.

„Í dag líður mér eins og Katara, eins og Araba, eins og Afríkumanni. Í dag finnst mér ég vera samkynhneigður. Í dag finnst mér eins og mér sé mismunað. Í dag líður mér eins og farandverkamanni.“

„Að sjálfsögðu er ég ekki Katari, ég er ekki Arabi eða Afríkumaður. Ég er ekki samkynhneiðgur, ekki fatlaður. En mér líður þannig því ég veit hvernig það er að vera mismunað, að vera lagður í einelti, að vera útlendingur í öðru landi.“

Infantino segir að hann hafi verið lagður í einelti í æsku því hann var Ítali með rautt hár og freknur.

„Hvað gerir maður þá? Þú reynir að taka þátt, eignast vini. Þú byrjar ekki að ásaka, slást, móðga heldur byrjar þú að taka þátt í samfélaginu. Þetta er það sem við ættum að gera.“


Tengdar fréttir

Átti að hreinsa upp skítinn en fær nú hæli í Katar

„Einbeitið ykkur að fótboltanum“ sagði Gianni Infantino, forseti FIFA, í bréfi til þátttökuþjóða á HM í Katar tæpum þremur vikum fyrir upphafsflaut mótsins sem hefst á sunnudaginn kemur. FIFA hefur dregið í land með ýmis loforð fyrir mótið og lítið pláss virðist vera fyrir mannréttindamál hjá forseta sem á nú hæli í gestgjafaríkinu.

Enginn sem býður sig fram gegn Infantino

Gianni Infantino verður einn í kjöri þegar kosið verður um forseta alþjóðaknattspyrnusambandsins í mars á næsta ári. Enginn býður sig fram gegn forsetanum núverandi sem verið hefur verið stjórnvölinn síðan 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×