Erlent

Rússar vongóðir um að fá „sölumann dauðans“ frá Bandaríkjunum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Útlit er fyrir að skipt verði á Bout fyrir Griner.
Útlit er fyrir að skipt verði á Bout fyrir Griner. epa

Rússar hafa viðurkennt í fyrsta sinn að viðræður séu í gangi milli þeirra og Bandaríkjamanna um fangaskipti sem myndu fela í sér að Bandaríkjamenn slepptu alræmda vopnasalanum Viktor Bout, sem gengur undir viðurnefninu „sölumaður dauðans“.

Aðstoðarutanríkisráðherrann Sergei Ryabkov sagði í gær að líkurnar á fangaskiptum hefðu aukist. Endanleg útfærsla lægi ekki fyrir en Bout væri óneitanlega á meðal þeirra sem rætt væri um og að Rússar vonuðust sannarlega eftir „jákvæðri niðurstöðu“. 

Ryabkov sagði Bout hafa verið ofsóttan í Bandaríkjunum og sendi honum hugheilar kveðjur.

Bout, sem var flugmaður í her Sovétríkjanna, var framseldur frá Taílandi til Bandaríkjanna árið 2010. Hann var dæmdur í 25 ára fangelsi eftir að hafa verið fundinn sekur um samsæri sem miðaði að því að myrða Bandaríkjamenn og bandaríska embættismenn, fyrir vopnasölu og aðstoð við hryðjuverkasamtök.

Vitað er að Bandaríkjamenn freista þess meðal annars að fá til baka körfuknattleikskonuna Brittney Griner, sem var dæmd til fangelsisvistar fyrir að vera með lítið magn kannabisolíu í fórum sínum. Hún dvelur nú í fanganýlendu í þorpinu Yavas í Mordóvíu, um 500 kílómetra suðaustur af Moskvu.

Þá hefur verið rætt um að Paul Whelan, fyrrverandi hermaður sem dæmdur var fyrir njósnir, sé einnig undir í fangaskiptunum. Hann dvelur nú í vinnubúðum einhvers staðar í Rússlandi en hefur ávallt sagst saklaus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×