Erlent

Enn lenda stýriflaugar í Úkraínu

Samúel Karl Ólason skrifar
Íbúar Lviv virða fyrir sér gíg eftir að stýriflaug lenti þar í gær.
Íbúar Lviv virða fyrir sér gíg eftir að stýriflaug lenti þar í gær. EPA/MYKOLA TYS

Fjölda rússneskra stýriflauga var skotið að Úkraínu í morgun. Margar þeirra eru sagðar hafa verið skotnar niður en sprengingar hafa heyrst víða um landið, í Kænugarði, Odessa og Dnipro-borg en minnst fjórir eru látnir og fimm særðir eftir árásirnar.

Árásirnar eru sagðar hafa beinst að orkuinnviðum og iðnaðarsvæðum en stýriflaugar munu einnig hafa lent á íbúðarhúsum. Reuters segir árásir meðal annars hafa verið gerðar á gasvinnslu og stóra flugskeytaverksmiðju.

Samhliða slæmu gengi á víglínum Úkraínu og aukinni gagnrýni heima fyrir hafa forsvarsmenn rússneska hersins gert ítrekaðar eldflauga- og drónaárásir á borgaraleg skotmörk og innviði í Úkraínu. Stór hluti þessa árása hefur dreifst að orkuverum og dreifikerfi Úkraínu.

Markmiðið með þessum árásum virðist vera að draga baráttumóðinn úr Úkraínumönnum og grafa undan grunnstoðum úkraínska ríkisins og gera rekstur þess erfiðari til lengri tíma. Ráðamenn í Moskvu reyna einnig að nota árásirnar til að þagga í gagnrýnisröddum heima fyrir sem segja Rússa ekki ganga nógu langt í stríðinu.

Sjá einnig: Ástandið alvarlegt eftir umfangsmestu árás Rússa

Eftir að Rússar hörfuðu frá Kherson hefur sérstaklega mörgum stýriflaugum verið skotið að Úkraínu. Rússar virðast einnig hafa notað sjálfsprengjudróna frá Íran við árásirnar í morgun.

Ráðamenn í Úkraínu hafa deilt myndbandinu hér að neðan í morgun en það sýnir stýriflaug lenda í Dniproborg.

AP fréttaveitan hefur eftir yfirvöldum í Kænugarði að þar hafi tvær stýriflaugar verið skotnar niður auk fimm sjálfsprengidróna frá Íran. Fréttaveitan hefur eftir sérfræðingum að Úkraínumenn virðast vera að skjóta niður fleiri stýriflaugar og dróna en áður.

Viðmælendur AP segja að það megi að hluta til rekja til nýrra og háþróaðra loftvarnarkerfa frá Vesturlöndum.

Stýriflaugar og drónar komist þó áfram í gegnum varnir Úkraínumanna. 

Nokkur myndbönd hafa veri í dreifingu á netinu í morgun sem sýna stýriflaugar Rússa skotnar niður af loftvarnarkerfum Úkraínumanna. 


Tengdar fréttir

Rússar ábyrgir vegna stöðugra árása á Úkraínu

Forseti Póllands og aðalframkvæmdastjóri NATO segja Rússa bera ábyrgð á því með umfangsmiklum árásum sínum á borgir og bæi í Úkraínu að ein af loftvarnaeldflaugum Úkraínumanna sprakk innan landamæra Póllands í gærkvöldi. Miklar skemmdir urðu á innviðum Úkraínu í árásum Rússa.

Segir ekkert benda til árásar

Andrzej Duda, forseti Póllands, segir engin ummerki um að vísvitandi árás hafi leitt til þess að tveir Pólverjar dóu nærri landamærum Úkraínu í gær. Hann segir að líklega hafi það verið slys sem olli því að loftvarnaflaug frá Úkraínumönnum hafi banað fólkinu.

Lík­leg­a loft­varn­a­flaug sem villtist af leið

Líkur eru á að flugskeytið sem banaði tveimur í Póllandi í gær hafi verið úkraínsk loftvarnaflaug sem villtist af leið. Rússar skutu gífurlegum fjölda stýriflauga á skotmörk víðsvegar um Úkraínu í gær. Í fyrstu var talið að ein þeirra eða fleiri hefðu misst marks og lent í Póllandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×