Fótbolti

Forseti FIFA biður um vopnahlé í Úkraínu yfir HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gianni Infantino hefur verið forseti FIFA síðan að Sepp Blatter varð að segja af sér vegna hneykslis- og mútumála.
Gianni Infantino hefur verið forseti FIFA síðan að Sepp Blatter varð að segja af sér vegna hneykslis- og mútumála. Getty/ Joern Pollex

Gianni Infantino, forseti Alþjóða knattspyrnusambandsins, biðlar til Rússa, Úkraínumanna og heimsins alls um að gera hlé á stríðinu á meðan heimsmeistaramótið í Katar stendur yfir.

Forseti FIFA vill að stríðsaðilar nýti jafnframt tækifæri til að leita leiða til að enda stríðið og semja um frið í Úkraínu.

Infantino talaði um þetta á fundi með G20 sem eru samtök fjármálaráðherra og seðlabankastjóra tuttugu ríkja ásamt fulltrúum Evrópusambandsins.

Infantino sagði að mánaðarlöng heimsmeistarakeppni gæfi gullið tækifæri til að leita lausna og um leið biði það upp á einstakt tækifæri til að semja um frið á svæðinu.

„Beiðni mín til ykkar allra er að hugsa um tímabundið vopnahlé í einn mánuð eða fram yfir heimsmeistaramótið eða að minnsta kosti að búa til mannúðlegan vettvang eða dyr sem leiða til samtala um fyrstu skrefin í átt að friði,“ sagði Gianni Infantino í ræðu sinni.

„Þið eruð leiðtogar heimsins og hafið tækifærið til að hafa áhrif á mannkynssöguna. Fótboltinn og heimsmeistarakeppnina eru að bjóða ykkur upp á einstakt svið fyrir samstöðu og frið út um allan heim,“ sagði Infantino.

Heimsmeistarakeppnin í Katar hefst á sunnudaginn kemur og stendur yfir til 18. desember.

Rússar komust í átta liða úrslit á heimavelli fyrir fjórum árum síðan en voru bannaðir frá þessari heimsmeistarakeppni eftir innrásina í Úkraínu. Úkraína var nálægt því að komast í keppnina en féll út í umspili á móti Wales í júní.

Infantino býst við því að 5,5 milljarðar horfi á heimsmeistaramótið í ár og þar sé frábært tækifæri til að gefa heiminum réttu skilaboðin í átt að því að öðlast frið.

„Kannski getur HM, sem hefst eftir fimm daga, hrint af stað jákvæðum breytingum,“ sagði Infantino.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×