Erlent

Sel­ensk­í heim­sótt­i Kher­son

Samúel Karl Ólason skrifar
Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, með úkraínskum hermönnum í Kherson.
Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, með úkraínskum hermönnum í Kherson. Forsetaembætti Úkraínu

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, heimsótti Kherson-borg í morgun. Hersveitir Rússa hörfuðu nýverið frá borginni en eru þrátt fyrir það í nokkur hundruð metra fjarlægð, hinu megin við Dniproá.

Selenskí sakaði Rússa í gærkvöldi um ítrekuð ódæði í borginni og Kherson-héraði. Hann sagði rannsakendur hafa fundið sannanir fyrir því að Rússar hafi framið að minnsta kosti 400 stríðsglæpi í Kherson.

Sjá einnig: Segir Rússa seka um stríðsglæpi í Kherson

Yfirvöld í Rússlandi halda því fram að Kherson sé rússnesk borg, eftir að Vladimír Pútín, forseti Rússlands, skrifaði undir ólöglega innlimun á fjórum héruðum Úkraínu fyrr í haust.

Talsmaður Pútíns vildi ekki tjá sig um heimsókn Selenskís til borgarinnar að öðru leyti en að segja að hann væri á rússnesku landsvæði.

Fjölmargir rússneskir hermenn eru sagðir skammt frá Kherson-borg, á austurbakka Dniproár en þar eru Rússar meðal annars með mikið magn stórskotaliðsvopna. Til marks um það heyrðust sprengingar skammt frá þegar Selenskí ávarpaði fólk í borginni í morgun.

Vólódímír Selenskí í Kherson.AP/Bernat Armangue

Mikil fagnaðarlæti hafa átt sér stað í Kherson eftir að Rússar flúðu þaðan í síðustu viku. Úkraínumenn hafa sagt einhverja rússneska hermenn hafa verið eftir á vesturbakkanum og eru Rússar einnig sagðir hafa skilið eftir sig mikið magn af jarðsprengjum og gildrum.

Sjá einnig: Hvetja Rússa sem eru í felum í Kherson til að gefast upp

Kherson-borg er gífurlega mikilvæg hafnarborg og frelsun hennar markar gífurlega mikilvægan sigur fyrir Úkraínumenn. Borgin er eina héraðshöfuðborgin sem Rússar höfðu hernumið frá því þeir hófu innrásina í febrúar.

Úkraínumenn eru sagðir hafa frelsað rúman helming þess landsvæðis sem Rússar höfðu lagt undir sig þegar mest var.


Tengdar fréttir

Lofar að láta Pútín heyra það

Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, heitir því að láta ríkisstjórn Vladímírs Pútíns, forseta Rússlands, heyra það á fundi þjóðarleiðtoga stærstu þjóða heims í vikunni.

Banksy staddur í Úkraínu

Dularfulli listamaðurinn Banksy er staddur í Úkraínu um þessar mundir. Hann birti í gær myndir af verki sínu á Instagram. 

Pútín firrir sig ábyrgð á undanhaldinu

Varnarmálaráðuneyti Rússlands segir allar hersveitir Rússa hafa hörfað frá vesturbakka Dniproár í Kherson-héraði í suðurhluta Úkraínu. Á undanhaldinu felldu Rússar brúnna yfir Dnipro. Vladimír Pútín, forseti Rússlands, firrir sig allri ábyrgð á undanhaldinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×