Viðskipti erlent

Óreiðan virðist ráða ríkjum hjá Twitter

Samúel Karl Ólason skrifar
Falskir reikningar á Twitter hafa valdið usla á undanförnum dögum.
Falskir reikningar á Twitter hafa valdið usla á undanförnum dögum. Getty/Jakub Porzycki

Frá því auðjöfurinn Elon Musk tók við stjórn samfélagsmiðilsins Twitter hefur mikil óreiða ríkt þar. Musk varaði við því í nótt að gjaldþrot kæmi til greina en fyrr í gærkvöldi hafði hann sagt stöðu fyrirtækisins vera erfiða en margir af æðstu yfirmönnum fyrirtækisins hafa sagt upp á undanförnum dögum.

Musk var á fundi með starfsmönnum Twitter í nótt þegar sagði gjaldþrot mögulegt.

Nú er Twitter hætt að selja notendum aðgang að bláu merki sem hingað til hefur falið í sér að Twitter ábyrgist að umræddur reikningur sé raunverulegur. Nokkrir dagar eru síðan opnað var á þessa áskriftarleið.

Þessa áskriftarleið gátu notendur notað til að búa til reikning á Twitter, láta hann heita hvað sem er og greiða fyrir það átta dali á mánuði. Aragrúi notenda hefur búið til reikninga í nafni frægs fólks og jafnvel fyrirtækja.

Tók korter að þykjast vera þingmaður

Blaðamaður Washington Post sagði frá því að hann hefði í stofnað tvo nýja reikninga á Twitter í rannsóknarskyni. Annan notaði hann til að þykjast vera grínistinn Blaire Erskine en hinn reikningurinn var í nafni öldungadeildarþingmannsins Ed Markey en hann fékk leyfi þeirra beggja.

Það tók hann minna en korter að búa til reikningana.

Forsvarsmenn Twitter segja að reikningum þar sem notendur eru að þykjast vera aðrir verði lokað og viðkomandi aðilar bannaðir. Það er þó ekkert hjá Twitter sem kemur í veg fyrir að falskir reikningar séu stofnaðir og óljóst er hverjir eru að vakta nýja reikninga á samfélagsmiðlinum.

Eitt af fyrstu verkum Musks eftir að hann tók við stjórn fyrirtækisins var að segja um helmingi af um 7.500 starfsmönnum Twitter upp.

Hættu við að hætta við

Í morgun var svo tilkynnt að Twitter myndi aftur byrja að nota merkinguna „Offical“ við reikninga mikilvægs fólks, fyrirtækja og stofnana. Byrjað var á því eftir að áðurnefnd áskriftarleið var opnuð en Musk tók þá ákvörðun að hætta við það. Nú virðist sem honum hafi snúist hugur aftur.

Sjá útlínur áætlunar um ofurforrit

Í frétt Business Insider segir að þó óreiðan virðist ríkja innan veggja Twitter sé mögulega ekki allt eins og sýnist. Sé litið framhjá glundroðanum sjáist útlínur áætlunar Musks sem snúa að því að gera Twitter að svokölluðu „ofurforriti“.

Musk hefur oft talað um að hann vilji gera Twitter að meira en samfélagsmiðli og að hann vilji búa til „allskonarforrit“ sem hann hefur kallað „X“. Meðal annars hefur Musk líkt hugmyndum sínum við ofurforritið WeChat í Kína.

Forrit þetta myndi bjóða notendum upp á aðgang að afþreyingarefni, skilaboðaþjónustu, tölvuleikjum, bankaþjónustu, netverslun og ýmsu öðru.

Musk hefur til að mynda sagt að hann vilji gera notendum kleift að birta lengri myndbönd á miðlinum og bjóða framleiðendum möguleika á því að hagnast á efni þeirra á Twitter. Þá fjallaði hann lauslega í gær um hugmyndir sínar um að veita bankaþjónustu á Twitter.

Musk hefur reynslu af slíkri þjónustu en á árum áður kom hann að stofnun PayPal. New York Times sagði frá því í vikunni að Twitter hefði þegar lagt inn gögn varðandi umsóknir um stofnun greiðsluveitu.

Einn sérfræðingur sem ræddi við Business Insider sagði ljóst að Musk væri með einhverja áætlun. Hann hefði í minnsta lagi skýra mynd í höfðinu um breytingarnar sem hann vildi gera á Twitter.

Musk hefur sjálfur vakið athygli á því að þrátt fyrir óreiðuna á Twitter hafi notendum fjölgað og virni aukist. Í morgun sagði hann að notendur hefðu aldrei verið fleiri.

Vaxtagreiðslur margfaldast

Eins og frægt er orðið skrifaði Musk undir kaupsamning á Twitter í apríl en reyndi að komast undan því að kaupa fyrirtækið. Eftir margra mánaða deilur og dómsmál stóð Musk við samninginn og keypti fyrirtækið á 44 milljarða dala.

Eftir það tók hann fyrirtækið af hlutabréfamarkaði.

Við yfirtöku Musks tók fyrirtækið á sig um þrettán milljarða dala í skuldir. Sérfræðingar gera ráð fyrir því að vegna þessara skulda muni vaxtagreiðslur Twitter hækka úr um fimmtíu milljónum dala árið 2021 í rúman milljarð dala á næsta ári.

Sjá einnig: Skuld­ir Twitt­er stig­magn­ast við yf­ir­tök­u Musks

Ofan á það hafa auglýsendur dregið úr kaupum sínum á auglýsingum á Twitter og þá meðal annars vegna glundroða þar og þess að Musk hefur gefið í skyn að minna verði um ritstjórn á samfélagsmiðlinum.

Musk hefur í kjölfarið unnið hörðum höndum að því að leita nýrra tekjulinda fyrir samfélagsmiðlafyrirtækið og sagði hann upp nærri því helmingi af um 7.500 starfsmönnum Twitter.


Tengdar fréttir

Musk selur enn fleiri bréf í Tesla

Elon Musk, ríkasti maður jarðar, seldi á dögunum hlutabréf í rafbílaframleiðandanum Tesla fyrir tæpa fjóra milljarða Bandaríkjadala.

Ný á­­skriftar­­leið á Twitter í loftið

Twitter kynnir formlega nýja áskriftarleið þar sem notendum miðilsins býðst að kaupa vottun á aðgangi sínum fyrir 8 bandaríkjadali, eða tæpar tólf hundruð krónur, á mánuði. 

Þúsundum starfs­manna sagt upp

Elon Musk hefur sagt upp rúmlega helmingi starfsmanna samfélagsmiðilsins Twitter. Musk er sagður hafa lagt niður heilu deildirnar, þar á meðal deild sem á að sporna gegn dreifingu falsfrétta og röngum eða villandi upplýsingum á miðlinum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×