Íslenski boltinn

Auður Scheving til liðs við silfur­lið Stjörnunnar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Auður Scheving er mætt á Samsung völllinn í Garðabæ.
Auður Scheving er mætt á Samsung völllinn í Garðabæ. Stjarnan

Markvörðurinn Auður Sveinbjörnsdóttir Scheving hefur ákveðið að söðla um og ganga í raðir Stjörnunnar í Bestu deild kvenna í fótbolta. Hún var samningsbundin Íslandsmeisturum Vals.

Auður Scheving er tvítug og hefur verið á mála hjá Val síðan 2019 en hefur undanfarin ár spilað með Aftureldingu og ÍBV á láni. Þá á hún að baki einn A-landsleik og var hluti af landsliðshóp Íslands á EM í sumar.

„Ég er mjög spennt og ánægð með þetta skref sem ég veit að mun pottþétt hjálpa mér að vaxa og ná enn lengra. Stjarnan er með gríðarlega sterkt og gott lið og mjög flotta umgjörð og ég er gífurlega spennt fyrir næstu árum í Garðabænum,“ sagði markvörðurinn efnilegi er skipting voru opinberuð á Facebook-síðu Stjörnunnar.

„Það verður spennandi að sjá hvernig Auður mun kom inn í hópinn hjá okkur og þroskast sem markvörður . Auður á alla möguleika á að komast í fremstu röð í íþróttinni og það er ætlun okkar að hjálpa henni þangað,“ sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar, um nýjustu viðbót liðsins.

Chante Sandiford varði mark Stjörnunnar síðasta sumar en meiddist undir lok tímabilsins og því kom Audrey Rose Baldwin tímabundið frá HK. Ekki kemur fram á vef Stjörnunnar hvort Auður Scheving komi til með að taka stöðu Chante en hún er samningsbundin til loka tímabilsins 2023.

Stjarnan kom virkilega á óvart í sumar og endaði í 2. sæti Bestu deildarinnar. Liðið mun því taka þátt í forkeppni Meistaradeildar Evrópu á næsta ári.


Tengdar fréttir

Guðmundur yfir í Garðabæinn

Guðmundur Kristjánsson er genginn í raðir Stjörnunnar frá FH en Garðabæjarfélagið tilkynnti um komu Guðmundar með myndbandi á samfélagsmiðlum sínum í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×