Erlent

Musk sagður í­huga að rukka not­endur 20 dollara á mánuði fyrir vottun

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Musk er nú eini eigandi og „yfirtístari“ Twitter.
Musk er nú eini eigandi og „yfirtístari“ Twitter. Getty/Nur Photo/Jakub Porzycki

Elon Musk er nú sagður íhuga að rukka Twitter-notendur um 20 Bandaríkjadali á mánuði fyrir vottun þess efnis að þeir séu raunverulega þeir sem þeir segjast vera. Auðkennda notendur má þekkja á bláu merki við nafn þeirra á Twitter.

Samkvæmt miðlinum Platformer er til skoðunar að gera breytingar á Blue-áskriftarleið miðilsins en áskrifendur hafa hingað til verið rukkaðir um 4,99 dollara á mánuði. Nú stendur til að hækka gjaldið í 19,99 dollara og munu áskrifendur hafa 90 daga til að ákveða hvort þeir vilja vera með eða ekki.

Ef þeir kjósa að greiða ekki samkvæmt hækkaðri gjaldskrá, missa þeir litla bláa merkið.

Í raun er um að ræða nokkuð snjalla leið til að auka tekjur Twitter, sem Musk þarf að gera til að geta greitt skuldir félagsins sem nú er alfarið í hans eigu. Flestir þeirra sem eru auðkenndir eru þekktir einstaklingar; stjórnmálamenn, fjölmiðlamenn og Hollywood-stjörnur, svo dæmi séu tekin.

Þá er fjöldi opinberra embætta og stofnana út um allan heim vottaður.

Flestir þessara einstaklinga og aðila hafa væntanlega fjárhagslegt ráðrúm til að greiða hið hækkaða gjald.

Musk hefur ekki tjáð sig um fregnirnar en tísti um helgina að allt vottunarferlið væri í endurskoðun. Þá vakti hann athygli á Twitter-könnun í dag, þar sem notendur voru spurðir að því hversu mikið þeir væru reiðubúnir til að greiða fyrir auðkenningu.

Áður hefur verið greint frá því að til standi að gera vottunarkerfið einfaldara, þannig að fleiri geti sótt um og fengið staðfest að þeir eigi raunverulega umræddan aðgang.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×