Innlent

Fimm ný ríkis­störf á Akur­eyri

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Sigurður Ingi kveðst hafa beitt sér fyrir fjölgun starfa á landsbyggðinni.
Sigurður Ingi kveðst hafa beitt sér fyrir fjölgun starfa á landsbyggðinni. Vísir/Vilhelm

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hyggst flytja fimm opinber sérfræðistörf til Akureyrar. Nýtt teymi verður stofnað í bænum og 21 stöðugildi verða á skrifstofum stofnunarinnar á Akureyri. Ráðherra fagnar fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni.

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra kynnti breytingarnar á fundi í starfsstöð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) í dag. Hann segir ánægjulegt að fá sérfræðistörf í bæinn.

„Við fögnum því að opinberum störfum fjölgi á landsbyggðinni. Ég hef í ráðherratíð minni beitt mér fyrir því að fólk eigi kost á að vinna fjölbreytt opinber störf um land allt, ýmist með því að efla opinberar stofnanir á landsbyggðinni, flytja sérhæfð störf eða efla tækifæri til að vinna störf án staðsetningar. Það er einnig viðvarandi verkefni að efla innviði til að fólk hafi raunverulegt val um hvar það býr og starfar,“ sagði Sigurður Ingi á fundinum.

Tilflutningurinn er hluti af endurskipulagningu HMS. Verkefnin sem flutt verða til Akureyrar eru á sviði brunabótamats. Starfsfólk sem áður sinnti þessum verkefnum er komið í önnur störf hjá stofnuninni, sem er til húsa í Reykjavík, Borgarnesi og á Sauðárkróki.

„Flutningur starfa hefur góða raun hjá HMS. Nú eru breyttir tímar og tæknin vinnur með okkur. Stofnunin er ekki lengur eitt hús, heldur vinnum við í mörgum teymum um land allt, á Akureyri, í Borgarnesi, Reykjavík og á Sauðárkróki,“ sagði Hermann Jónasson forstjóri stofnunarinnar enn fremur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×