Viðskipti innlent

Reykja­víkur­borg fær raf­magn frá N1

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Rafmagnsleysi hefur verið óvenju títt í miðborginni og Vesturbænum upp á síðkastið.
Rafmagnsleysi hefur verið óvenju títt í miðborginni og Vesturbænum upp á síðkastið. vísir/vilhelm

N1 rafmagn ehf. mun sjá Reykjavíkurborg fyrir rafmagni næstu tvö árin, frá og með áramótum. Rafmagnskaup borgarinnar færast frá dótturfélagi Orkuveitu Reykjavíkur sem er í meirihlutaeigu borgarinnar.

Þetta er niðurstaða útboðs Reykjavíkurborgar sem borgin var skikkuð til að fara í eftir að Kærunefnd útboðsmála úrskurðaði að Reykjavíkurborg skyldi bjóða út kaup á raforku.

Hingað til hefur Reykjavíkurborg keypt rafmagn af Orku náttúrunnar, dótturfélagi Orkuveitu Reykjavíkur, sem er í meirihlutaeigu borgarinnar.

Um er að ræða alla almenna raforkunotkun borgarinnar auk götulýsingar. Boðin voru út innkaup á 46 gígavattstundum. Fjögur tilboð bárust, frá N1, Orkusölunni, Orku náttúrunnar og Straumlind.

Yfir kostnaðaráætlun en þó tuttugu prósent lægra en núverandi verð

N1 rafmagn átti lægsta tilboðið. Hljóðaði það upp á á 5,65 krónur á hverja kílóvattstund fyrir almenna notkun en 5,35 krónur fyrir götulýsingu. Það þýðir að N1 mun veita þjónustuna fyrir 257,5 milljónir króna á ári.

Í tilkynningu á vef borgarinnar segir að tilboð N1 hafi verið nokkuð yfir kostnaðaráætlun en þó tuttugu prósentum undir núverandi orkuverði.

Gildistími samningsins verður frá 1. janúar 2023 til 31. desember 2025. Heimilt er að segja upp samningnum með þriggja mánaða fyrirvara tólf mánuðum eftir að hann er kominn á og hægt er að framlengja hann tvisvar um eitt ár í senn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×