Fótbolti

Fyrirliði Feyenoord vildi ekki vera með regnbogaband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Orkun Kökcü er tilbúinn að vera með fyrirliðaband Feyenoord, svo lengi sem það sé ekki í regnbogalitum.
Orkun Kökcü er tilbúinn að vera með fyrirliðaband Feyenoord, svo lengi sem það sé ekki í regnbogalitum. getty/Broer van den Boom

Orkun Kökcü, leikmaður Feyenoord, neitaði að vera með fyrirliðaband í regnbogalitum í leik liðsins gegn AZ Alkmaar í hollensku úrvalsdeildinni um helgina.

Hinn 21 árs Kökcü var fyrirliði Feyenoord í fimm leikjum liðsins áður en að viðureigninni gegn AZ kom. En þar kvaðst hann ekki geta verið með regnbogaband til stuðnings hinsegin fólki. Kökcü bar fyrir sig trúarlegar ástæður.

„Ég hef ákveðið að vera ekki með regnbogaband í þessari umferð,“ sagði í yfirlýsingu frá Kökcü á heimasíðu Feyenoord.

„Mér finnst mikilvægt að árétta það að ég ber virðingu fyrir öllum burtséð frá trú eða bakgrunni þeirra. Mér finnst að allir eigi að geta gert það sem þeir vilja. Ég er full meðvitaður um mikilvægi þessa þáttar en vegna trúar minnar er ég ekki rétti maðurinn til að styðja þetta.“

Kökcü sagðist ennfremur skilja ef fólk væri svekkt út í hann fyrir að vilja ekki vera með regnbogabandið en bað um að ákvörðun hans yrði virt. Kökcü skoraði eitt mark og lagði upp annað í 3-1 sigri Feyenoord á AZ. Austurríkismaðurinn Gernot Trauner tók við fyrirliðabandinu af honum.

Kökcü er uppalinn hjá Feyenoord og hefur leikið 129 leiki fyrir liðið og skorað tuttugu mörk. Hann er fæddur í Hollandi en hefur leikið sautján leiki fyrir tyrkneska landsliðið síðan 2020.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×